144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að svo verði ekki og það takist að halda allri þessari starfsemi innan þeirra marka sem fjárlög kveða á um, eðlilega.

Ég vil nota tækifærið og segja að tilgangur þessarar sameiningar, markmiðið er — þó að það sé mikilvægt markmið í sjálfu sér að auka hagkvæmni, rekstrarhagkvæmni, sem við eigum auðvitað að hafa að leiðarljósi í öllum okkar störfum — ekki síður það, og jafnvel enn mikilvægara í þessu tilfelli, að horfa til þjónustu og mikilvægis hennar og að auka gæði í menntamálum okkar, gæði í skólastarfinu. Það er auðvitað grundvallarhugsunin í þessum breytingum, ná fram samlegðaráhrifunum hvað varðar gæði, samspili námsmats og námsgagna, rannsóknum í menntamálum, sem vantar töluvert upp á hér á landi þegar við miðum okkur við nágrannalöndin, þannig að við séum betur í stakk búin til að horfa til langtímasjónarmiða varðandi menntakerfið og líka betur í stakk búin til að meta og greina áhrif á þeim breytingum sem eru innleiddar í skólakerfið og gera það þannig að við getum hagað allri starfsemi sem best og þannig tryggt að það nám sem við bjóðum nemendum okkar upp á sé sem best.