144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynningu hans á þessu þingmáli sem að lokinni umfjöllun okkar í þingsalnum gengur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til frekari umfjöllunar og umsagna og þeirrar þinglegu meðferðar sem mál hér fá.

Það vakna auðvitað strax ákveðnar spurningar um málið við kynningu ráðherrans sem væri gott að fá ráðherrann til að svara við lok umræðunnar þegar hann flytur síðari ræðu sína. Mér gafst kostur á að koma þeim að í andsvörum við framsöguræðu ráðherrans.

Fyrsta atriðið sem ég staðnæmist nokkuð við í málinu er verksvið fyrirhugaðrar stofnunar. Það kunna að vera rök fyrir því að setja upp sérstaka menntastofnun. Það verður að vega og meta í hinni þinglegu meðferð, en verkefni hennar þurfa þá að vera býsna skýrt skilgreind og þess vegna staðnæmist ég við orðalagið „ákvörðun ráðherra“. Er það þá hugmynd ráðherrans að hann geti, eftir að Alþingi hefur lagt blessun sína yfir þessi lög, ákveðið hver þau verkefni sem hann telur henta og falið stofnuninni án nokkurrar aðkomu Alþingis? Eða er verið að vísa til einhverra minni háttar verkefna, einstakra mála eða annarra slíkra hluta sem eðli máls samkvæmt þurfa ekki þinglega meðferð? Mér finnst nauðsynlegt að ráðherrann skýri þetta býsna vel vegna þess að það er þannig um stofnanir ríkisins að verkefnasvið hverrar og einnar stofnunar er ákveðið með lögum og ég held að það kynni almennt ekki góðri lukku að stýra ef það væri ákvörðun ráðherra hvert verksvið stofnananna væri frá einum tíma til annars án nokkurrar pólitískrar aðkomu þingsins eða umræðu. Það verður að minnsta kosti að vera í mjög föstum skorðum hvernig verkefni stofnana breytast þótt sérstök sjónarmið kunni að eiga við um óveruleg atriði eða einhvers konar minni háttar verkefni. Mér þætti þess vegna vænt um að ráðherrann færi yfir hvernig þetta er hugsað og hvort um slík ákvæði séu önnur fordæmi. Það kann vel að vera að ráðherra setji þetta hér fram með vísan til fordæmis í öðrum lögum og verklagi sem hafi verið komið á en ég held að það hljóti að vera sameiginlegur skilningur, bæði þingsins og ríkisstjórnarinnar, að það að ákveða að fela stofnun umfangsmikil verkefni eða mikilvæg verkefni í samfélagsþjónustunni þurfi að gerast með aðkomu þingsins og viðkomandi fagnefndar hverju sinni, enda varla hægt að sjá fyrir sér að slíkur verkefnatilflutningur verði til í snarhasti eða þurfi að bjarga fyrir miðnætti einhvern daginn og þurfi þess vegna að vera hægt að gera snarlega með einfaldri ákvörðun ráðherra. Það hljóta að vera breytingar á stofnunum ríkisins sem eiga sér aðdraganda, fá kynningu, umfjöllun, umræðu, koma inn í þingið og til umfjöllunar nefndarinnar. Ég geng út frá því en vil biðja ráðherrann um að gera betur grein fyrir því hvernig sá þáttur í málinu er hugsaður.

Ég vil í öðru lagi fagna því að ráðherra er, venju fremur af ráðherrum að vera, raunsær um kostnaðarhlið málsins. Nú hefur auðvitað mikið verið um það rætt, ekki síst af forustumönnum stjórnarflokkanna í ríkisfjármálum, formanni og varaformanni fjárlaganefndar, að hér eigi að sameina stofnanir til rekstrarhagræðis og sparnaðar fyrir ríkið. Þeir sem hafa fylgst með sameiningu stofnana á undanförnum árum og hafa farið yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar um það efni vita að sameiningu stofnana fylgir kostnaður. Það kostar einfaldlega peninga að slá stofnunum saman. Það er kostnaðarauki af því, a.m.k. hin fyrstu árin ef ekki varanlegur og viðvarandi kostnaður. Hér er gert ráð fyrir því að það verði nokkur kostnaðarauki og það geti þurft á því að halda að fara fram úr rekstri á fyrstu tveimur árunum. Það er óvenjulega raunsæ nálgun og það er ágætt að komið sé hreint fram með það. Þetta er breyting sem mun kosta og það er af faglegum ástæðum sem ráðherrann sækir þetta, vegna þess að hann telur vera hagræðingu í þeim árangri sem við fáum út úr þeim kostnaði sem til er stefnt. Ég bið hæstv. ráðherra að fara ögn betur í gegnum það, þetta eru 15 milljónir sem gert hefur verið ráð fyrir í aukinn kostnað á þessu ári, í hverju sá kostnaður er fólginn fyrst og fremst og hversu umfangsmikill reksturinn er fyrst ekki liggur fyrir rekstraráætlun fyrir sameinaða stofnun, sem mér þykir miður og vona að megi bæta úr meðan málið er í umfjöllun í nefnd, en starfsmannafjöldi til að mynda og áætluð heildarumsvif á þessu ári núna fyrst á ekki að byrja fyrr en 1. júlí.

Í þriðja lagi vildi ég inna ráðherrann eftir því hvað það hafi verið í umfjöllun málsins í ráðuneytinu sem einkum hafi þótt álitaefni. Nú er það þannig, eins og ráðherrann kynnti, að málið hefur verið kynnt til umsagnar á vegum ráðuneytisins, væntanlega kynnt á vef ráðuneytisins og fengnar athugasemdir frá ýmsum aðilum, hagsmunaaðilum og aðilum tengdum málinu, við það. Málið hefur verið rætt við starfsmennina sem er alltaf mikið lykilatriði í farsælli sameiningu, að það sé í góðri samvinnu við starfsfólkið.

Það er alltaf þannig þegar verið er að leggja upp í vegferð eins og þessa að þá eru ólík sjónarmið um einstaka þætti. Það er til að greiða fyrir vinnunni í þinginu að ráðherrann dragi fram um hvað voru helst skiptar skoðanir við vinnslu málsins, um hvaða þætti málsins eru helst uppi ólík sjónarmið, hvar ágreiningsfletirnir í málinu eru. Það væri gagnlegt að fá þá reifaða strax við 1. umr. vegna þess að þannig nýtist sú ágæta vinna sem ráðuneytið hefur unnið með hagsmunaaðilum og starfsmönnum og þeim stofnunum sem í hlut eiga í aðdraganda þess að málið er flutt fram í þinginu.

Ég heyrði áðan orðaskipti hæstv. ráðherra við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um stjórn yfir stofnuninni. Þau vöktu mig aðeins til umhugsunar vegna þess að ef það er ætlun ráðuneytisins að koma sér upp stofnun, eins og við höfum dæmi um annars staðar, sem annast um stjórnsýslu og ákveðna framkvæmdaþætti á málasviði ráðuneytisins þá eru þess dæmi að slíkum stofnunum hafi verið settar stjórnir og jafnvel að í þeim stjórnum hafi verið tilnefndir fulltrúar annarra aðila, þ.e. þingflokka í sumum tilfellum og einnig ýmissa hagsmunaaðila, hvort sem það er annarra opinberra aðila eins og sveitarfélaga eða samtaka eins og aldraðra eða fatlaðra eða eftir málaflokkum hverjir í hlut eiga. Mér finnst það sannarlega vera umræðunnar virði, ef það er markmiðið með því að koma þessari stofnun á laggirnar og hún eigi, eins og ráðherra verður best skilinn, að vinna til langframa meira og meira að stefnumörkun í málaflokknum, hvort ekki eigi að nota ferðina, ef svo má segja, og fá formlega að borði sem flesta aðila í málaflokknum til þess einmitt að leggja inn í þá stefnumörkun og koma að því uppbyggingarstarfi í stefnumótun sem þar ætti að fara fram. Mér finnst alls ekki jafn sjálfsagt og ráðherranum virtist þykja að það væri óþarfa- eða ónauðsynlegur milliliður á milli ráðherrans og ráðuneytisins annars vegar og stofnunarinnar hins vegar. Þvert á móti held ég að slíkur vettvangur gæti orðið ráðherranum að gagni í þeim ákvörðunum sem hann þarf síðan að taka um stærri línurnar í stefnumörkuninni. Ég held að við höfum ýmis dæmi um svipaða hluti, þótt ekki væri nema í fræðsluráðum sveitarfélaga þar sem eru starfandi nefndir með bæði pólitískum fulltrúum og fulltrúum frá nemendum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum fagaðilum sem mætti segja að væru einhvers konar milliliður á milli fræðslustjórans og bæjarstjórans eða borgarstjórans í viðkomandi sveitarfélagi, en hefur nú engu að síður reynst býsna gott fyrirkomulag víða. Ég held, eins og vinsælt er að segja þessa dagana, að það megi a.m.k. taka umræðuna um þetta.

Þó þarf um leið að hafa í huga að boðleiðirnar mega ekki verða of langar í opinberu kerfi okkar. Það er kannski það sem er ástæða til að spyrja um í upphafi þegar rætt er hvort það eigi að koma á sérstakri stjórnsýslustofnun í menntamálum sem eigi líka að hafa stefnumörkun með höndum, sem hefur verið á höndum ráðuneytisins sjálfs. Erum við með því skrefi einfaldlega að lengja óþarflega boðleiðirnar í okkar litla samfélagi? Við erum aðeins 0,3 milljónir manna sem búum í þessu landi. Við höfum flutt stór verkefni á sviði fræðslumála til sveitarfélaganna. Erum við hér að bæta við einni stofnuninni enn þannig að menn þurfa að leita til grunnskóla síns og síðan til fræðslunefndarinnar og þegar þeir eru búnir að leita til hennar fara þeir til bæjarráðsins og þegar þeir eru búnir að fara þangað fara þeir til bæjarstjórans og svo til bæjarstjórnarinnar og svo fara þeir til Menntastofnunarinnar og svo til ráðuneytisins? Við þurfum að minnsta kosti að vera býsna viss um til hvers þessi nýja stofnun eða nýi milliliður á milli borgarans og hins endanlega valds ráðherrans á að vera.

Þá kemur að þeim spurningum sem lúta að innihaldi starfseminnar, af því að námsgagnagerðin hlýtur að vega nokkuð þungt í þessu. Þegar ráðherrann talar um, sem hann hafði vissulega innan gæsalappa, að í framtíðinni kæmi þarna inn „önnur tegund“ starfsmanna, þ.e. starfsmenn sem ynnu í raun og veru að öðrum verkefnum, það var ekki hægt að skilja orð ráðherrans öðruvísi — (Gripið fram í.) inn í ráðuneytið. Þá spyr maður um innihald málsins og í stofnuninni og hvort ráðherrann hyggi á breytingar í námsgagnagerðinni sjálfri. Eru fyrirhugaðar breytingar á því að hverju menn starfa innan stofnunarinnar? Er ætlunin að nýta til að mynda einkaaðila í ríkari mæli í einhverjum tilteknum verkefnum, t.d. eins og í námsgagnagerðinni, en nota þá þau störf sem hafa sinnt þeim verkefnum til annarra verkefna sem ráðherrann vill leggja áherslu á í starfi sínu?