144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu, andsvör og ræður og vildi nota tækifærið til þess að bregðast við nokkrum af þeim athugasemdum sem hv. þm. Helgi Hjörvar bar fram um málið.

Í fyrsta lagi varðandi verkefni og eðli þeirra verkefna sem ráðherra getur skotið til þessarar stofnunar. Það er hárrétt að hér er um nokkurt nýmæli að ræða frá því sem áður gilti um Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun, þar sem verkefni þeirra stofnana voru tæmandi talin í lögum og til þess að geta fært þeim einhver önnur verkefni hefði þurft lagabreytingar til. Ég vísa þá, virðulegi forseti, til 4. gr. h-liðar þar sem stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Önnur verkefni sem stofnuninni verða falin með lögum, reglugerðum eða ákvörðun ráðherra.“

Ég er algjörlega sammála hv. þm. Helga Hjörvari að það getur auðvitað og augljóslega ekki verið svo að það sé þar með komin einhvers konar opin heimild fyrir hverju sem er, enda má það ráða af 4. gr. að þar eru talin upp meginverkefni stofnunarinnar og þau fest í lög. Ef hugmyndir eru um að bæta við þau meginverkefnum hlýtur því að þurfa lagabreytingar til, að mínu mati. En það eru ýmis önnur verkefni sem eru þess eðlis að það mundi teljast vera nokkuð mikið í lagt að vera með sérstakar lagabreytingar þeirra vegna. Ég vil vísa til athugasemda við frumvarpið um 4. gr., h-liðinn, þar sem nokkuð er vikið að einmitt þessu máli og hvers eðlis slík verkefni gætu verið. Ég gríp hér niður, með leyfi virðulegs forseta, þar sem stendur:

„Samkvæmt ákvæðinu getur ráðuneytið einnig haft frumkvæði að því að kalla eftir umsögn frá stofnuninni í þeim málum sem ráðuneytinu berast. Þá mætti einnig fela stofnuninni umsýslu nefnda, stjórna eða ráða sem hafa með höndum verkefni sem tengjast verkefnum stofnunarinnar.“

Með öðrum orðum hlýtur sú skoðun að vera uppi, og ég er sammála henni, sem þingmaður nefnir, að ekki er hægt að gera einhvers konar eðlisbreytingar á verkefnum þessarar stofnunar án þess að löggjafinn komi þar að. En hvað varðar ýmis önnur verkefni sem eru tilfallandi, sem falla þar að en er ekki sérstaklega getið um í lögum, tel ég að það sé til hægðarauka að ráðuneytið geti sent þau með annaðhvort reglugerð eða beinni ákvörðun ráðherra til þessarar stofnunar.

Hvað varðar kostnaðarmatið vísa ég í umsögn um frumvarp til laga um Menntamálastofnun frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, skrifstofu opinberra fjármála, sem er í fylgiskjali II, en þar segir í niðurlagi, með leyfi virðulegs forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs í teljandi mæli til lengri tíma litið.“

Það er alveg rétt sem fram hefur komið að það kann að vera að rétt á meðan verið er að sameina stofnanirnar geti fallið til kostnaður. Eðlilega verður þess gætt að hann verði sem minnstur, en það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að rökin fyrir sameiningunni snúa fyrst og síðast að því að bæta gæði menntunar í landinu. Sú grundvallarhugsunin er að baki. Það er ágætt ef það leiðir til þess að við getum sparað einhverja fjármuni. Augljóst má vera að ein ný stofnun þarf ekki á að halda til dæmis tveimur fjármálastjórum eða einhverju þess háttar, en aðalatriðið er að við viljum bæta gæðin, við viljum bæta stafsemina, við viljum líka ná fram því sem ég hef rætt varðandi stjórnsýsluna, að styrkja hana og þá um leið skapa aukið svigrúm fyrir ráðuneytið sjálft til þess að sinna því sem mestu máli skiptir, sem er langtímastefnumótun á sviði menntamála.

Ég ítreka líka að þegar kemur að umræðu um sparnað hefur því verið lýst yfir gagnvart starfsfólki að þeir sem starfa í þessum tveimur stofnunum munu fá starf í hinni nýju stofnun. Það hefur verið tekin ákvörðun um það. Ég mun koma að því síðar, virðulegi forseti.

Hvað varðar rekstraráætlun og heildarniðurstöðu um það hvernig stofnunin mun líta út, fjölda starfsmanna o.s.frv. þegar til lengri tíma er litið, þá stendur sú vinna yfir þessa dagana. Stofnunin er í mótun. Við höfum þó gætt þess sem framast er kostur að starfsmönnum öllum sé haldið upplýstum, þeir þekki til þessara mála, það sé ekkert sem komi fólki á óvart. Við höfum reynt að vinna þetta með sem bestu samkomulagi við starfsmenn stofnunarinnar, en það er alveg hárrétt sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir benti á, að sjálfsögðu gerist svona lagað ekki þannig að allir verði 100% sáttir við þá ákvörðun, það gefur augaleið. En vonandi verða sem minnst átök hér um.

Þá kem ég að þeim lið athugasemda hv. þm. Helga Hjörvars þar sem hann spurði mig um þau álitamál sem hafa komið upp í þessari vinnu, við hvað hafi verið gerðar athugasemdir. Það eru ákveðin atriði, eðli málsins samkvæmt. Ég vil nefna nokkur og vona að það nýtist í þeirri vinnu sem fram undan er innan þingsins.

Til dæmis hefur verið rætt varðandi 2. gr. um skipulagið, hvort það eigi að vera stjórn eða ekki. Það eru rök fyrir báðum aðferðunum. Ég er þeirrar skoðunar, og þess vegna er málið lagt fram á þennan hátt, að eðlilegt sé að það sé ekki stjórn. Ástæðan er sú meðal annars að hér er verið að færa stjórnsýsluverkefni til þessarar stofnunar sem nú eru innan vébanda mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ráðherrann getur ekki fríað sig neinni ábyrgð á þeim. Þá kemur upp spurningin um stöðu stjórnar við slíkar aðstæður og til hvers hún raunverulega verður. Aftur á móti er hér lagt upp með það, og það eru líka umræður um það, sem snýr að 3. gr. og það eru fagráðin.

Farin er sú leið að fela forstjóra að setja á stofn eða fót fagráð fyrir helstu verksvið stofnunarinnar. Önnur leið er vissulega sú að kveða á um í lögum um ákveðin fagráð, að það sé búið að festa það þar. Það er líka hægt að nálgast það, og um það hafa skapast umræður, hvort það skuli staðið þannig að aðkomu ráðherra þurfi að því, þ.e. að fagráðin þurfi að leita samþykkis ráðherra um þau og þær reglur sem um þau gilda. Hér er þó lagt upp með að um fagráðin, sem eiga að vera til ráðgjafar fyrir stofnunina, séu settar reglur og þær birtar, þannig að hægt sé að kalla fram umræðu um þær, þannig að það séu opinber gögn.

Ein af ástæðum þess að ég legg ekki til við Alþingi að festa þetta um of er að það kann að vera hentugt að geta skipað tímabundið fagráð um ákveðin verkefni sem stofnunin sinnir þá og þá stundina, sem eru ekki sett til þess að vera til langframa en eru tilkomin vegna ákveðinna áherslna eða verkefna sem er verið að vinna.

Þetta eru tvö dæmi um mál sem hv. þingmaður kallaði eftir. Ég tel rétt og skylt að nefna einnig að það er umræða, eðli málsins samkvæmt, um ákvæði til bráðabirgða sem snúa að embættum og störfum þeirra sem eru með ráðningarsamband við Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun og eftir atvikum við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hér er lagt til að þau störf, þessi embætti og störf, verði lögð niður frá og með 30. júní 2015 en aftur á móti skuli bjóða stafsmönnunum nýtt starf hjá Menntamálastofnun, en þeir kunna þá að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Þetta hefur vakið nokkra umræðu, þetta fyrirkomulag sem hér er lýst eða hvort það ætti að vera ný stofnun og hinar stofnanirnar yrðu lagðar niður og síðan yrðu þau störf auglýst. Þannig væri enginn fyrir fram forgangur þeirra starfsmanna sem eru nú við störf í þessum tveimur stofnunum en þeir gætu þá sótt um eins og aðrir. Þessi leið er ekki farin heldur sú að tryggt sé að þeir starfsmenn sem nú eru fái störf. Í þriðja lagi væri hægt að nálgast þetta þannig að starfsmennirnir eða störfin flytjist með um leið og embætti flytjast inn í hina nýju stofnun. Sú leið er ekki farin.

Sú leið sem lagt er upp með er sambærileg til dæmis við þá leið sem farin var í lögum nr. 50/2014, lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, en þar er í bráðabirgðaákvæðum ákvæði sem snúa að þessu eða má hafa til skoðunar, en þar segir, virðulegi forseti:

„Ný embætti sýslumanna samkvæmt lögum þessum taka við öllum réttindum, eignum og skyldum þeirra sýslumannsembætta sem þau leysa af hólmi, þó ekki hvað varðar löggæslu. Eftir að skipulag embætta hefur verið ákveðið, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum þessum, skal bjóða öllum starfsmönnum þeirra embætta sem lögð verða niður störf ýmist hjá hinum nýju embættum sýslumanna eða lögregluembættum. Ef ekki er unnt að bjóða núverandi starfsmanni starf við ný embætti sýslumanna eða lögreglu skal leitast við að bjóða honum starf annars staðar á umsýslusviði þess ráðuneytis sem fer með málefni sýslumanna.“

Síðan, virðulegi forseti:

„Viðkomandi starfsmaður kann þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi vegna skipulagsbreytinga eða í tengslum við stofnun nýrra sýslumannsembætta og lögregluembætta í hverju umdæmi og með hliðsjón af nýju skipuriti.“

Ég bendi á þennan þátt málsins og eins það að í lögum nr. 72/2002, lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, er rétt að hafa í huga að í 1. gr. þeirra laga er kveðið á um hvaða starfsemi lögin ná ekki utan um og það er í a-lið, með leyfi forseta:

„Breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalds eða tilfærslu á verkefnum milli stjórnvalda.“

Þetta er rétt að hafa í huga.

Aðalatriðið er að í þessari sameiningu er lagt upp með að þeir sem hafa núna starf í þessum tveimur stofnunum verði boðið starf í hinni nýju stofnun. Það skiptir máli að starfsmenn geti gengið að því sem vísu. Þess vegna er það sett hér í bráðabirgðaákvæði á þennan hátt, virðulegi forseti.

Síðan hvað varðar stjórnina, því að hv. þm. Helgi Hjörvar vék að henni og eðli hennar þótt ég hafi vikið að því að nokkru fyrr í ræðu minni, er rétt að hafa í huga að þeirri spurningu hvort ætti að hafa stjórn og hvort ætti að tilnefna í hana o.s.frv. tel ég að ég hafi í raun svarað áður og fyrr í ræðu minni og ítreka að hugmyndir um stefnumótun í menntamálum verður áfram innan vébanda menntamálaráðuneytisins og er þessi aðgerð einmitt hugsuð til að styrkja þann þátt málsins.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefnir hvað varðar fjölda stofnana, það er réttilega bent á að það er alveg örugglega ekki vandamál í þessu landi að það séu of fáar stofnanir, frekar má benda á hitt. Þetta frumvarp, verði það að lögum, gerir það þó að verkum að tvær stofnanir verða að einni.

Þá kemur sú spurning sem hv. þingmaður velti upp: Er verið að lengja boðleiðir eða gera borgurunum flóknara fyrir að leita réttar síns o.s.frv.? Ég tel að svo sé ekki með þessu. Ég tel þvert á móti að ef vel tekst til sé hægt að einfalda verkferlana, einfalda aðkomu almennings að þeim úrlausnarefnum sem fólk kallar eftir, t.d. ef menn hafa athugasemdir við stjórnsýsluna, þá eru líka mögulega kæruleiðir ef einstaklingarnir eru ósáttir við niðurstöðuna. Fyrst og síðast held ég að það skipti máli að byggja upp sérfræðiþekkingu á sviði stjórnsýslunnar og á þeim þáttum sem stofnunin mundi fjalla um og hafa til umsýslunnar og um leið byggja enn frekar upp innan ráðuneytisins, þegar horft er til lengri tíma, þá þætti sem ég hef áður gert að umtalsefni og snúa að framtíðarstefnumótun í menntamálum.