144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[17:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fyrir að minna mig á hvar ábyrgðin liggur í þessu öllu saman.

Það hafði svo sem ekkert vafist fyrir mér að það er hæstv. ráðherra sem ber ábyrgðina. Samt sem áður er ég, ekki bara sem þingmaður heldur sem fyrrverandi starfsmaður menntamálaráðuneytisins, að reyna að skilja hvernig þetta mun falla saman. Þessi stofnun er með leiðbeiningarhlutverk, hún er líka með frumkvæðisskyldu. Hún tekur stóran hluta af menntasviði ráðuneytisins eins og það var að minnsta kosti þegar ég var þar, auðvitað eru nokkur ár liðin síðan það var.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvar er undirbúningurinn staddur? Er vitað hve margir starfsmenn fara úr ráðuneytinu yfir í þessa stofnun? Hér er gert ráð fyrir að lögin taki gildi um mitt þetta ár. Nú fer þetta í meðferð þingsins og þingið getur auðvitað breytt þessu ef það telur undirbúninginn ekki nægan. En telur hæstv. ráðherra að undirbúningur að nýrri stofnun, sem ekki hefur verið búin til lagaumgjörð um enn, sé kominn á þann stað að stofnunin geti byrjað að starfa eftir aðeins örfáa mánuði?