144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla. Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Tilefni og tilgangur frumvarpsins er í fyrsta lagi að leitast við að skýra betur valdmörk ráðuneyta sveitarstjórnarmála annars vegar og fræðslumála hins vegar með tilliti til kæruleiðar vegna ákvarðana sem teknar eru í grunnskólum á vegum sveitarfélaga og lúta að réttindum eða skyldum einstakra nemenda. Í öðru lagi er fjallað um skilyrði þess að sveitarfélög feli rekstur grunnskóla í hendur einkaaðila. Í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting þannig að fjallað er um skólaþjónustu í stað sérfræðiþjónustu í ýmsum ákvæðum laganna. Í fjórða lagi er með frumvarpinu lögð til breyting á orðalagi í grunnskólalögum um samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald til samræmis við sveitarstjórnarlög frá árinu 2011.

Með lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, var leitast við að afmarka skýrar en áður hvaða stjórnvaldsákvarðanir skólayfirvalda væru kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Var það gert á þann hátt að tiltaka eftir lagagreinum hvaða stjórnvaldsákvarðanir sættu kæru til ráðuneytis fræðslumála. Aðrar stjórnvaldsákvarðanir, jafnvel þótt þær væru teknar á grundvelli ákvæða grunnskólalaga, gætu á hinn bóginn sætt endurskoðun af hálfu ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Reynslan sýnir að farsælt virðist að ganga enn lengra og færa meðferð úrskurðarvalds að öllu leyti til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hefur embætti umboðsmanns Alþingis jafnframt ítrekað bent á nauðsyn þess að leitað yrði leiða til að leysa úr óvissu sem af þessu leiðir og tryggja þar með betur réttaröryggi borgaranna.

Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu felur í sér að allar stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli grunnskólalaga verði kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Vil ég þá vekja athygli, virðulegi forseti, á þeim umræðum sem urðu hér fyrir skömmu um það frumvarp sem ég mælti fyrir áðan varðandi nýja Menntamálastofnun.

Í frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að gerð verði breyting á ákvæði 43. gr. grunnskólalaga, en það ákvæði fjallar um sjálfstætt starfandi grunnskóla. Tilefnið eru álitamál sem hafa komið upp í tengslum við heimildir sveitarfélaga til að gera samninga við einkaaðila um rekstur á allri grunnskólastarfsemi viðkomandi sveitarfélaga. Með umræddri breytingu er brugðist við þeim álitamálum með það að markmiði að tryggja hag þeirra barna sem um ræðir og rétt þeirra til menntunar en einnig að setja skýrari ramma um slíka samninga til hagsbóta fyrir viðkomandi sveitarfélög og samningsaðila þeirra.

Samkvæmt grunnskólalögum er það á ábyrgð sveitarfélaganna að tryggja börnum rétt til fullnægjandi grunnskólagöngu og sjá til þess að skólaskyldu sé fullnægt. Grunnskólalög gera hins vegar ekki endilega ráð fyrir því að sveitarfélögin sjái sjálf um rekstur grunnskóla, enda er það vel þekkt að hér á landi hafa um langan tíma starfað sjálfstætt starfandi grunnskólar til hliðar við hefðbundna grunnskóla. Slíkir skólar hafa hins vegar almennt verið starfandi í stærri sveitarfélögum landsins þar sem börnum og foreldrum hefur verið kleift að velja milli hinna sjálfstætt starfandi skóla og skóla á vegum hins opinbera. Með frumvarpinu er ekki ætlunin að hrófla við því né sérstaklega breyta eða auka frelsi sveitarfélaga til að gera samninga við einkaaðila um rekstur grunnskóla. Hins vegar verður að teljast mikilvægt að löggjöf um starfsemi sjálfstætt starfandi eða einkarekinna grunnskóla sé fullnægjandi og svari með sem ítarlegustum hætti álitamálum um réttindi barna og foreldra og um inntak náms í slíkum skólum. Í gildandi lögum er aðeins fjallað um sjálfstætt starfandi grunnskóla og samningssamband þeirra við viðkomandi sveitarfélag í 43. gr. grunnskólalaga. Á það hefur verið bent að ákvæði þetta er ekki svo glöggt sem æskilegt væri um starfsumhverfi og skyldur hinna sjálfstætt starfandi skóla og þar með um réttindi þeirra barna sem þar sækja nám. Mikilvægt er að leitast við að bæta úr þessu, ekki síst ef það verður þróunin í auknum mæli að sveitarfélög kjósa að gera samninga við einkaaðila um rekstur alls eða umtalsverðs hluta grunnskólahalds í sveitarfélaginu.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur að verði frumvarpið að lögum leiði það ekki til viðbótarkostnaðar fyrir ríkissjóð. Vakin er athygli á að verið er að flytja verkefni frá innanríkisráðuneytinu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem gæti þýtt tilfærslu fjárheimilda á milli ráðuneyta. Þá er það niðurstaða ráðuneytisins að sveitarfélögin verði ekki fyrir auknum kostnaði vegna ákvæða frumvarpsins. Framangreind niðurstaða hefur verið borin undir Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerir ekki athugasemd við umsögnina.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp hefur að geyma tillögur um breytingu á ákvæðum laga að því er varða valdmörk innanríkisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneytisins hvað varðar kæruleiðir vegna ákvarðana sem teknar eru í grunnskólum á vegum sveitarfélaga og lúta að réttindum eða skyldum einstakra nemenda. Í frumvarpi þessu er nýmæli þar sem kveðið er á um skilyrði sem þarf að uppfylla ef sveitarfélag ætlar að útvista rekstri eins eða allra grunnskóla sveitarfélaga til einkaaðila. Að lokum eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við almenna málvenju og sveitarstjórnarlög frá árinu 2011.

Í kjölfar lögfestingar frumvarpsins er ráðgert að reglugerð um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan, nr. 699/2012, verði endurskoðuð, m.a. með það að markmiði að létta á reglubyrði og greiða fyrir skilvirkni, afgreiðslu, viðurkenningu á sjálfstætt starfandi grunnskólum.

Að lokum vil ég nefna að sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu er skref í þá átt að skýra starfsumhverfi einkarekinna grunnskóla. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að gildandi lög um grunnskóla eru einkum sniðin að rekstri opinberra grunnskóla. Fræðimenn hafa bent á að lögin séu að mörgu leyti óhentugur rammi sjálfstætt starfandi grunnskóla og hafa lagt til að sett verði sérstök lög um sjálfstætt starfandi grunnskóla, eins og gert hefur verið t.d. í Danmörku. Af þeim ástæðum hef ég ákveðið að setja af stað vinnu við undirbúning nýrrar löggjafar um sjálfstætt starfandi grunnskóla.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.