144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir og andsvar.

Ég vil nefna að í 2. gr. a-liðar er sérstaklega fjallað um þann þátt málsins sem kannski snýr að því sem kom fram undir lok andsvarsins hvað varðar lífsskoðunarfélög og önnur slík félög sem gætu verið rekstraraðilar að skólum, þ.e. að skólanefnd sveitarstjórnar hefur sambærilegt hlutverk gagnvart skólahaldi í sjálfstætt starfandi grunnskóla og henni er ætlað samkvæmt 6. gr. gagnvart skólahaldi í grunnskóla sem rekinn er af viðkomandi sveitarfélagi, þegar um slíka stöðu er að ræða. Það á því að vera hægt að tryggja það að skólahaldið lúti öllum þeim sömu reglum eins og um almenna skóla væri að ræða á vegum sveitarfélagsins og að kennt sé eftir viðurkenndri námskrá með þeim áherslum sem þar birtast.

Ég er sammála hv. þingmanni, og kveðið er sérstaklega á um það í b-lið hvað varðar kostnað að þegar um er að ræða þá stöðu að sveitarfélagið útvisti skólahaldinu með þeim hætti sem hér er um að ræða í 2. gr. þá getur það ekki verið svo að innheimt séu einhvers konar skólagjöld í þá starfsemi.

Af hverju núna? spyr hv. þingmaður. Jú, á Tálknafirði kom þetta mál upp fyrir skemmstu þar sem ráðuneytin, þ.e. innanríkisráðuneytið annars vegar og mennta- og menningarmálaráðuneytið, greindi á um hver væri lagaleg staða þess skóla og réttur sveitarstjórnarinnar til að taka þá ákvörðun sem tekin var. Kallað var eftir lögfræðilegri úttekt á því máli. Niðurstaða þeirrar úttektar birtist í raun og veru hér þannig að við vildum koma með þetta mál núna strax inn í þingið til að það lægi fyrir til að tryggja meðal annars hagsmuni þeirra barna sem eru í þeim skólum þannig að það sé tryggt nú þegar. Og líka ef önnur sveitarfélög (Forseti hringir.) sem eru í svipaðri stöðu hyggjast fara sömu leið, þá sé það klárt mál að það sé gert á grundvelli skýrra laga.