144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú höfum við í hér landinu í grundvallaratriðum opinbert kerfi grunnskóla. Við höfum hins vegar ágæta sögu af einstaka einkaskólum sem hafa ræktað sérstaklega ákveðna þætti eða sýnt tiltekinn mikinn metnað á einstaka sviðum og verið hvatning fyrir grunnskólakerfið í heild sinni. Ég held þó að það hljóti að vera okkur nokkurt umhugsunarefni hver staðan væri ef einkarekinn skóli væri eini valkostur í viðkomandi samfélagi.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort honum finnist það fullnægjandi að skóli falli undir reglur skólanefndar í viðkomandi sveitarfélagi ef maður sem íbúi gæti verið í þeirri stöðu að þurfa að senda barnið sitt í skóla sem er rekinn af einhverjum samtökum sem maður er ósammála í grundvallaratriðum vegna lífsskoðana eða annarra slíka þátta. Nú erum við auðvitað ekki í þeirri stöðu sem sum nágrannalönd okkar hafa lent í að vera með lífsskoðunarfélög sem hafa beinlínis talist vafasöm í slíkum rekstri. Mér finnst einfaldlega að það hljóti að þurfa að ræða það alveg sérstaklega. Það er allt annað mál hér í Reykjavík þar sem þetta hefur verið valkostur fyrir okkur sem höfum gengið í slíka skóla eða sent börn í slíka skóla að geta gert það, en allir hafa átt hinn almenna grunnskóla sem valkost. Ég held að það hljóti að orka tvímælis að minnsta kosti ef um rekstraraðila er að ræða sem geta verið öndverðir lífsskoðunum fólks, að þeir geti komið að hinum almenna grunnskóla og verið hinn eini (Forseti hringir.) veitandi grunnskólaþjónustu í heilu samfélagi.