144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu máli er mikilvægt að hafa til hliðsjónar og hafa í huga að deila var um ákvæði grunnskólalaganna, hvað þau þýddu, svo Tálknafjarðardæmið sé tekið, ef svo má að orði komast, þar sem tekist var á um þetta mál. Niðurstaðan var sú að samkvæmt gildandi lögum var það heimilt, sveitarstjórninni var heimilt að taka þá ákvörðun sem hún tók. Það sem er verið að gera með þessum lögum er að búa til umgjörð um þá stöðu þannig að hagsmunir barnanna séu tryggðir. Með þessu lagafrumvarpi er ekki verið að takast á við þá spurningu hvort það eigi að vera heimilt eða ekki. Það tilheyrir þá öðrum lögum.

Hér er einungis verið að segja miðað við lögin eins og þau eru og hafa verið túlkuð, ég vísa þá til þeirra deilna sem voru á milli innanríkisráðuneytisins annars vegar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins hins vegar, að að gefinni þeirri niðurstöðu sem þar er komin þá er það mitt mat að styrkja þurfi lagaumgjörðina um þessa starfsemi, meðal annars vegna þeirra sjónarmiða sem hv. þm. Helgi Hjörvar reifaði. Þannig að ef þessi staða kæmi upp þá sé það tryggt að foreldrar og börnin njóti menntunar eins og lög og reglur kveða á um, hver staða skólanefndanna sé og tryggt sé að kennt sé eftir námskrá o.s.frv. Ég tel því að með þessu sé verið að byggja þá umgjörð sem dugi til að takast við þessa stöðu sem getur komið upp.

Hitt er síðan það, virðulegi forseti, að þegar við berum okkur saman við Norðurlöndin er það auðvitað mjög sláandi í okkar kerfi hversu fáir sjálfstætt starfandi grunnskólar eru til staðar. Þeir eru mun fleiri á Norðurlöndunum og hlýtur að vera til umhugsunar.

Við höfum líka séð hver þróunin hefur verið á leikskólastiginu þar sem sjálfstætt starfandi leikskólum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum og stór hluti barna á því skólastigi er núna í sjálfstætt starfandi skólum og það fyrirkomulag hefur gengið mjög vel, virðulegi forseti.