144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:50]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Ég er mjög jákvæð gagnvart því að fjölga rekstrarformum í velferðarþjónustunni en það er algerlega á þeirri forsendu, eins og ég nefndi, að það séu ekki hagnaðarsjónarmiðin sem ráði. Ég hef sjálf bent á samvinnufélagsformið.

Hv. þingmaður talaði um sjálfseignarstofnun. Við erum með dæmi af mjög vel reknum einkahlutafélögum og höfum séð stjórnendur þar með mikinn metnað til að vera með mjög gott skólastarf og sinna börnunum sem þar eru eins vel og hægt er. Ég hef sjálf verið með dætur mína í leikskóla sem var rekinn samkvæmt Hjallastefnunni. Ég hef líka verið með dætur mína í grunnskóla sem var rekinn á vegum sjálfseignarstofnunar og svo að sjálfsögðu í grunnskólum sem voru reknir á vegum sveitarfélaga. Ég hef lagt áherslu á og átt mjög gott samtal um það við hæstv. menntamálaráðherra að mikilvægt sé að auka fjölbreytni.

Eins og ráðherra nefndi í máli sínu eru valkostirnir fjölbreyttari annars staðar á Norðurlöndunum. Það hefur verið mjög áhugavert að sjá hvernig foreldrar þar hafa tekið sig saman um að reka menntastofnanir fyrir börn sín og meðal annars hefur samvinnufélagsformið hentað mjög vel.