144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[18:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir síðari ræðu hans um málið og þær upplýsingar sem þar komu fram. Ég verð að segja að ég held að viðfangsefni okkar sé kannski brýnna þegar kemur að skólaskyldunni, að skoða hvort það eigi að auka hana, þ.e. færa hana neðar í skólakerfið, í leikskólastigið og gera þar almennt nám fyrir yngri börn en nú er, þó að það sé sjálfsagt að skoða hitt.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um annað sem ég skildi af ræðu hæstv. félags- og húsnæðisráðherra áðan en það er um hagnaðinn af grunnskólarekstrinum, að honum skyldi verja til rekstrarins sjálfs. Ég held að það hljóti að vera mikilvægt að ræða og sérstaklega þegar rekstraraðili fer með allt skólahald í viðkomandi sveitarfélagi, því að nú er ráðherrann með tillögu sem lýtur að því að þá má rekstraraðilinn ekki krefja um umframgjöld, hann má ekki krefja um skólagjöld ofan á kostnaðinn.

Þá hlýtur að vakna spurningin: Á honum að vera heimilt að spara í rekstrinum á hinni almennu grunnskólaþjónustu í sveitarfélaginu til þess að greiða sjálfum sér arð út úr rekstrinum? Auðvitað er það þannig að það má spara í heildarrekstri grunnskóla í ýmsum sveitarfélögum án þess að það bókstaflega bitni á námskránni sjálfri. Óhjákvæmilega getur það í mörgum tilfellum leitt til verri þjónustu eða aðbúnaðar nemenda. Þess vegna hlýtur spurningin um réttinn til greiðslu arðs af rekstri grunnskóla að vera sérstaklega krefjandi þegar um er að ræða einkaleyfi á starfsemi grunnskóla í viðkomandi sveitarfélagi. Hver er afstaða ráðherrans til þessa?