144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[18:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er ekki tekin bein afstaða til þess álitamáls sem hv. þingmaður nefnir. Í raun og veru er það skilið eftir hjá viðkomandi sveitarstjórn að taka afstöðu til þess, þ.e. þegar gerður er samningur við viðkomandi rekstraraðila er hægt að ganga eftir slíkum þáttum með þeim hætti sem sveitarstjórnin sjálf kýs að gera. Í því felst auðvitað heilmikil ábyrgð en ég tel að sveitarstjórnum sé fullkomlega treystandi til þess að taka slíkar ákvarðanir og bendi á ný á þau ákvæði sem eru í 2. gr., sem eru einmitt til þess fallin að tryggja það að sú starfsemi sem fer fram í sjálfstætt reknum skóla sem er í þeirri stöðu sem um er að ræða, er eini valkosturinn, að það er tryggt að börn sem þar stunda nám hafi í engu minni réttindi eða fái í engu minni þjónustu en ef um væri að ræða skóla sem rekinn er af viðkomandi sveitarfélagi. Til þess eru þá fallin þau ákvæði sem eru í tillögum a, b og c og eins í því sem á undan kemur í 2. gr., að sveitarfélagi beri, virðulegi forseti, með yðar leyfi, „að tryggja að ákvæði grunnskólalaga séu uppfyllt“. Í því er auðvitað fólgin algjörlega stefnumarkandi ákvörðun sem sveitarfélögin þurfa að horfa til við alla samningagerð, og tel ég að það svari því álitaefni sem hv. þingmaður nefndi.