144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:17]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Það mál sem er komið á dagskrá er svokallað frumvarp til laga um örnefni, sem mér tókst ekki að vera þátttakandi í þegar það var tekið á dagskrá fyrir jól og áramót á síðasta ári. Mig langar samt sem áður til þess að gera að umtalsefni nokkur atriði í frumvarpinu sem ég hef í tvígang rennt í gegnum.

Ég er almennt hlynntur meginmarkmiðum frumvarpsins en ég hef samt sem áður fyrirvara á nokkrum þáttum sem mér finnast bera með sér andblæ Ráðstjórnarríkjanna sálugu, það er ákveðinn sovéskur blær yfir þessu máli. Ég hef svipaðar skoðanir á örnefnanefnd og mannanafnanefnd, mér finnst það eitthvað sem hægt er að réttlæta undir ákveðnum kringumstæðum en vel hægt að vera án. Ef íslenska þjóðin varðveitir ekki sjálf mannanafnahefð sína hefur hún ekkert með hana að gera og enga þörf fyrir hana, ef það er niðurstaðan. Það sama má að vissu marki segja um örnefnin. Þó að það sé auðvitað jákvætt að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefðar í landinu finnst mér að það eigi að gerast af sjálfu sér og að það eigi að vera heimabyggðin eða fólkið í landinu sem varðveitir örnefnin og nafngiftahefðina.

Markmið þessara laga er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefðar í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum, að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og málvenju, staðhætti og örnefnahefð, og að samrýma stjórnsýslu við skráningu örnefna þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt.

Íslensk örnefni hafa að mörgu leyti orðið til af sjálfu sér og þá í tengslum við atvinnuhætti og landnotkun hvers tíma. Þannig eru til dæmis í Vestmannaeyjum Skiphellar og Fiskhellar. Svo er þar líka Fjósaklettur, sem er tilvísun í atvinnuhætti og starfsemi sem var á staðnum. Þarna er einnig örnefnið Dufþekja sem má rekja til sögunnar af Dufþaki, þræl Hjörleifs, og svo auðvitað Herjólfsdalur sem er frægur að endemum fyrir ýmissa hluta sakir.

Það eru líka dæmi um það á sumum stöðum á landinu, t.d. á Snæfellsnesi þar sem byggð liggur upp að fjallgarði hvor sínum megin, að sömu náttúrufyrirbrigðin heiti hvort sínu örnefninu, eins og t.d. fjallið Örninn sem heitir Örn sunnan megin nessins og Tröllkarlinn norðan megin. Hvor byggð fyrir sig hefur því ákveðið að þetta fjall heiti tilteknu nafni og það er auðvitað ákaflega jákvætt og skemmtilegt. Það eru líka til örnefni sem eru ekki í samræmi við íslenskuna eða í samræmi við neina málnotkun og málvenjur sem maður getur skýrt, a.m.k. í fljótu bragði. Til dæmis er að Fjallabaki fjallið Skerínef, sem er oft tilefni vangaveltna um hvernig sú nafngift geti verið til komin. Þar að auki eru örnefni í sífelldri þróun. Maður sér, ég er þá fyrst og fremst að vísa til reynslu minnar sem leiðsögumaður, að það verða til örnefni sem tengjast ferðum fólks um landið. Þannig hefur til að mynda í hópi þeirra sem ár hvert fara á Öræfajökul eða upp á Hvannadalshnjúk ákveðinn steinn fengið nafnið Línusteinn. Hann heitir það ekki í neinum kortum eða neitt slíkt, en þeir sem fara þangað reglulega vita alveg hvaða örnefni er þarna á ferðinni og það verður til út frá því að göngumenn setja sig gjarnan í línu á þessum tímapunkti og binda sig saman í öryggisskyni.

Þótt ég geti alveg verið sammála meginmarkmiðinu, að þarna sé á ferðinni menningararfur sem okkur ber að varðveita skipulega, finnst mér líka að gæta þurfi að því að það séu ákveðnir vindar frjálslyndis og sjálfsprottin þróun. Mér finnst í mörgum tilfellum ekki nægilega vel gætt að því í þessu frumvarpi. Ef ég fer beint í 4. gr. um örnefnanefndina finns mér nokkrir liðir fullkomlega óþarfir, eins og að veita umsögn um fyrirhugað nafn á nýjum þéttbýliskjarna eða hverfi innan sveitarfélags. Mér finnst það sem segir í d-lið líka algjör óþarfi, að veita umsögn um nafn sveitarfélags. Að veita umsögn um nafn á nýju náttúrurfyrirbæri innan sveitarfélags er einnig óþarfi í mínum huga. Það er verið að búa til verkefni fyrir þessa nefnd sem í raun ætti að vera vistuð einhvers staðar annars staðar eða vera í höndunum á sveitarfélögunum sjálfum.

Hér er lagt til að nefndinni verði heimilt að taka mál upp að eigin frumkvæði. Það kemur fram í skýringunum með 4. gr. að ekki sé alltaf öruggt að viðkomandi sveitarstjórnir á hverjum tíma fari eftir verklagsreglum eða lögum um örnefnavernd og nefndin þurfi þá að hafa tækifæri til þess að gera athugasemdir við ferlið og fara fram á endurskoðun á nafni í slíkum tilvikum. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera einum of mikill málatilbúnaður í kringum það sem gæti verið sjálfsprottin og eðlileg þróun.

Það er líka sagt frá því að kostnaður af starfsemi þessarar örnefnanefndar skuli greiðast úr ríkissjóði en þrátt fyrir að verið sé að fjölga fulltrúum í nefndinni úr þremur í fimm er ekki gert ráð fyrir neinum kostnaðarauka, þó er settur hér inn frumkvæðisréttur nefndarinnar til þess að taka upp alls konar mál. Það er meira að í segja í umsögn fjármálaráðuneytisins um málið svo óskiljanleg setning að ég hef ekki enn þá náð utan um hana eða áttað mig á því hver þýðing hennar er. Það segir hér, með leyfi forseta:

„Nýir nefndarmenn þiggja laun á sama hátt og nefndarmenn þannig að breytt fyrirkomulag mun ekki leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.“

Ég held að þetta hljóti að vera einhver málfarsvilla, sem er bagalegt vegna þess að í frumvarpinu er einmitt ætlast til þess að hér sé sérstök varðveisla ákveðins sviðs tungumálsins.

Svo segir í niðurlagi þessarar umsagnar:

„Verði frumvarpið lögfest virðist ekki ástæða til að ætla að það hafi teljandi áhrif á útgjöld við þau verkefni sem tilheyra þessum málaflokki.“

Það er engin yfirsýn veitt í frumvarpinu eða í umsögninni þannig að mér finnst hún ófullnægjandi. Mér sýnist í fljótu bragði, eins og ég hef rakið í stuttu máli, að það væri hægt að einfalda þetta til mikilla muna og stytta og að þarna sé töluverður óþarfi. Það sem við eigum alltaf að spyrja okkur að þegar við setjum lög í þessari stofnun er: Er þetta nauðsynlegt? Mér sýnast vera nokkur atriði í þessari löggjöf sem eru það ekki. Það má líka alveg vera innbyggt í þá löggjöf sem er verið að setja hér að sjálfsprottinn frumkvæðisandi byggðanna fái að njóta sín.

Ég hlakka til að sjá umsagnir um þetta mál, vegna þess að það er forvitnilegt að vita hver viðbrögð þeirra verða sem um það fjalla. Ég áskil mér allan rétt til þess að hafa hvaða skoðun sem er á málinu þegar það kemur til frekari afgreiðslu í þinginu.