144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:29]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ágætis spurning hjá hæstv. menntamálaráðherra vegna þess að ég held að svona hlutir geti bara gerst af sjálfu sér, eins og þeir hafa gert í gegnum söguna. Það nafn sem nýtur mestra vinsælda verður ofan á. Í sumum tilfellum gerist það ekki og til verða mjög hástemmd deilumál um Hverfjall eða Hverfell, en þetta hefur tilhneigingu til þess að leysa sig sjálft.

Svo þegar kemur að öryggisatriðunum er það alveg rétt að það getur verið mjög til hagræðis að hafa rétt örnefni skráð í kort. Hins vegar er það þannig á landinu okkar að mörg örnefni koma fyrir á mjög mörgum stöðum. Til dæmis eru mjög mörg Jökulfell í Öræfasveitinni. Á Suðurlandsundirlendinu eru ekki bara Tindfjöll heldur líka Tindafjöll, sem eru þar rétt hjá. Sem betur fer hefur nútímatækni gert björgunarsveitum okkar og ferðalöngum kleift að nota einfaldlega GPS-tæki til þess að vita nákvæmlega á hvaða stað á að fara, þannig að það leysir sig sjálft og er algjör óþarfi að hafa sérstaka nefnd í því sem hefur þar að auki sjálfstæðan frumkvæðisrétt til þess að funda allan ársins hring í þessum efnum, eins og mér sýnist af frumvarpinu. Ég held að menn ættu að slá þarna varnagla og reyna að hafa þetta eins einfalt og mögulegt er.