144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að vekja athygli á því að kortagerð á Íslandi á sér ekki langa sögu hvað það varðar almennt. Þó að til séu kort frá gamalli tíð þá voru samfélagsaðstæður hér í landi í svo mörg hundruð ár allt aðrar en þær eru núna þar sem nú er krafa um ýmislegt; um öryggi í þessum hlutum. Það snýr meðal annars að landamerkjadeilum, þ.e. hvernig örnefni eru færð inn í kort. Það getur haft áhrif á réttindi manna og annað slíkt sem er til þess fallið að hafa nokkra vissu um hvernig leyst er úr málum. Það er til þess að auka réttaröryggi en líka öryggi, og ekki bara þá hvernig björgunarsveitarmenn með GPS-tæki sín bregðast við heldur geta ferðalangar líka gert sér grein fyrir því hvað stendur á kortinu o.s.frv.

Ég vil minna á, virðulegi forseti, að nú er í gildi ákveðið fyrirkomulag. Ég held að það sé nauðsynlegt að við höfum í huga hvaða fyrirkomulag er núna um þessi mál vegna þess að það er ekki svo að þetta sé allt saman sjálfsprottið í rómantísku umhverfi þar sem nöfnin verða einhvern veginn til og allt endar með einhverju allsherjarsamkomulagi, það er ekki alveg svo.

Þetta frumvarp færir ákvörðunarréttinn, vissulega með umsögn frá örnefnanefndinni, til viðkomandi sveitarfélags þegar nýtt náttúrufyrirbæri verður til. Svo stendur ráðherrann frammi fyrir því að taka ákvörðun þegar til verða náttúrufyrirbæri utan sveitarfélagamarka.

Tökum sem bara dæmi hvernig Surtseyjarnafnið kom til, ég veit að hv. þingmaður þekkir það, þ.e. hver aðdragandi og bakgrunnur þeirrar nafngiftar var. Ég mundi halda að það hafi ekki verið sérstaklega lýðræðislegt eða sjálfsprottið. Nýrri dæmi eru til um slíkt þar sem tekin hefur verið ákvörðun með þeim hætti en hefur í raun ekki átt sér lagastoð. Með því er vissulega verið að setja upp ákveðið kerfi en ég tel að það sé óumflýjanlegt (Forseti hringir.) í nútímasamfélagi að þetta sé gert og ég tel að hér sé ekki með nokkrum hætti verið að leggja (Forseti hringir.) einhverjar aukabyrðar á þetta efni eða koma í veg fyrir að nöfn eigi sér eðlilegan aðdraganda eða þróun.