144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nokkuð frá því að umræða um frumvarpið var síðast á dagskrá þingsins og farið að fenna dálítið í hana. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og tek undir með honum að ástæða er til að varast óþarfa stjórnlyndi í þessum efnum og ástæða til að takmarka sig við það sem nauðsynlegt er og mikilvægt. Ég held til dæmis að stjórnlyndið í mannanafnamálum hafi sannarlega ekki orðið til þess sem það var ætlað heldur sé löngu komið í fullkomna mótsögn við upphafleg markmið sín og löngu tímabært að afnema þá löggjöf.

Hér rak mig hins vegar í rogastans þegar þingmaðurinn vekur athygli á því að nefndin eigi að hafa umsögn um nöfn á hverfum í sveitarfélögum og nöfn á sveitarfélögum, ef ég skildi það rétt, og einhvers konar rétt til þess að krefjast endurskoðunar, ef rétt eftir var tekið, í þeim efnum. Þá rifjast upp einhverjar deilur um nöfn á sveitarfélögum, hvort íbúum í því sem nú heitir Fjarðabyggð ætti að vera leyfilegt að velja sér nafnið Austurríki, ef ég man þær deilur rétt og deilur um fjölmörg önnur nöfn á sveitarfélögum. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að fólk eigi að fá að ráða því sjálft í sinni byggð hvað sú byggð eigi að heita en ekki einhver nefnd fyrir sunnan. Ég velti fyrir mér hvernig um þetta er búið í málinu og bið hv. þingmann að upplýsa um það hvort nefndin eigi með einhverjum hætti að geta krafið sveitarfélögin um breytingar á nöfnum á götum, hverfum eða á sveitarfélögunum sjálfum eða hvort einhver viðurlög séu við því ef sveitarfélögin kjósa að hafa orð erkibiskups að engu.