144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:37]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki halda því fram að það sé einhver regla að þeir sem hafa sérþekkingu á íslensku máli séu svona almennt þvergirðingar en ég þekki hins vegar nokkur dæmi um að það fari saman hjá fólki. Þess vegna er það sérstakt áhyggjuefni að gerð er sú krafa að meðal nefndarmanna skuli vera sérþekking á íslensku máli og svo eru nefndinni falin nokkuð mikil völd þegar kemur að því að veita umsagnir um fyrirhugað nafn á nýjum þéttbýliskjarna eða hverfi innan sveitarfélags eða að veita umsögn um nafn á sveitarfélagi og að fela þá sveitarfélagi að taka mál til endurskoðunar. Ég held að þetta séu dæmi um hlutverk sem beri með sé einum of mikið stjórnlyndi og sé fullkominn óþarfi að það sé til einhver opinber nefnd sem fari með þetta hlutverk. Er það ekki þannig að við getum alveg treyst þeim hópi fólks sem samsetur einhvern þéttbýliskjarna eða sveitarfélag að ákveða hvaða nafn hann vilji bera? Mér finnst það blasa við og ég held að það hafi reynst algjör óþarfi að vera með einhverja sérstaka opinbera úrskurði í þessum efnum.