144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta sýnist vera algjör óþarfi og ekki bara óþarfi heldur beinlínis að geta valdið óþarfa erfiðleikum í samskiptum við sveitarfélögin, skapað óþarfa deilur. Ég treysti því nú sannast sagna að lokaorðið væri eftir sem áður, jafnvel þó að þessi þarflausu og jafnvel vondu ákvæði næðu fram að ganga, að úrslitaorðið sé áfram hjá sveitarfélaginu og bið hv. þingmann um að fara yfir það hvort heimildir nefndarinnar séu ekki bara til þess að biðja sveitarfélagið um að hugsa málið eða eitthvað í þá veruna, hvort hún hafi nokkrar heimildir til þess að skikka sveitarfélag til að breyta nöfnum á götum, hverfum eða sjálfum sér eða beita sveitarfélög nokkurs konar viðurlögum í þeim efnum eða taka af þeim ráðin. Ég treysti því að ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsforræði sveitarfélaga hljóti að ná til þess að þau megi sjálf ráða því hvað þau heiti þó að einhver nefnd geti svo sem haft skoðun á því ef hún vill, en þá sé óþarfi að binda það í lög að henni beri að hafa skoðun á því í hvert eitt sinn. Það held ég að sé algerlega óþarflega mikil fyrirhöfn í ekki flóknari málum en hér eru á ferðinni.