144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa verið um þetta mál sem er nefnilega mjög mikilvægt því að það fyrirkomulag sem við höfum um þessa hluti þarf að standa til langs tíma og hefur mikið menningarsögulegt gildi, ásamt þeim atriðum sem hafa verið nefnd hér um réttaröryggi og öryggi ferðamanna og annað slíkt.

Mér hefur fundist nokkuð bera á því að hv. þingmenn tali svolítið eins og það séu engin lög um þessa nefnd í gildi núna eða neitt fyrirkomulag til staðar. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að grípa aðeins niður í núgildandi löggjöf og benda á nokkur atriði. Í 2. gr. laga um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, er fjallað um örnefnanefnd eins og hún er í dag og skilgreind í lögum. Hér er sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Örnefnanefnd skal fjalla um nafngiftir býla skv. 5., 7. og 8. gr. laganna. Jafnframt úrskurðar örnefnanefnd um hvaða örnefni verða sett á landabréf sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands, eða með leyfi þeirrar stofnunar, sé ágreiningur eða álitamál um það efni. Þá sker nefndin úr ágreiningi um ný götunöfn og sambærileg örnefni innan sveitarfélaga. Málsaðild eiga Landmælingar Íslands, aðrir kortagerðarmenn, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, landeigendur, sveitarstjórnir og hlutaðeigandi ráðuneyti, en um málsaðild fer að öðru leyti að hætti stjórnsýslulaga. Heimilt er nefndinni að leita álits sérfræðinga áður en ákvarðanir eru teknar. Úrskurðum nefndarinnar er hægt að skjóta til ráðherra …“

Svo heldur áfram hér, virðulegi forseti:

„Í reglugerð, sem ráðherra setur, skal kveðið nánar á um starfsemi örnefnanefndar. Skulu þar m.a. vera ákvæði um undirbúningsferli ákvarðana nefndarinnar um nafnsetningar á landabréf, þar á meðal um að örnefni, sem ágreiningur er um, skuli auglýst fyrir almenningi með hæfilegum fyrirvara þannig að hverjum þeim sem telur sig búa yfir vitneskju eða ábendingum, er að haldi komi, gefist færi á að kynna nefndinni álit sitt.“

Slíkt er til staðar í því frumvarpi sem um ræðir hér.

Síðan segir í 3. gr.:

„Nöfnum á býlum utan kaupstaða og kauptúna eða þorpa, sem skráð hafa verið hjá Þjóðskrá Íslands, má ekki breyta nema með leyfi örnefnanefndar.“

Sjá menn nú það sovéska fyrirkomulag. Og í 4. gr. segir:

„Tilkynna skal örnefnanefnd um nafn á nýbýli utan kaupstaða, kauptúna og þorpa.“ — Þarna er kveðið sérstaklega á um þetta.

Í 5. gr. er sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Vilji eigandi breyta nafni býlis síns skv. 3. gr. skal hann senda örnefnanefnd beiðni um það. Í beiðninni skal hann skýra frá ástæðum þess að farið er fram á að eldra nafn býlisins verði lagt niður og þeim ástæðum er ráðið hafa vali umsækjanda á nýju nafni. Breytingar á nafni býlis skal ekki leyfa, nema alveg sérstaklega standi á, svo sem að býlið eigi samnefnt við annað lögbýli í sama héraði eða því um líkt.“

Í 7. gr. er eftirfarandi:

„Nú myndast þéttbýli — eða þorp — í landi einhverrar jarðar eða jarða, og er þá rétt, að sveitarstjórn sæki um það til örnefnanefndar að fá lögfest nafn á því, enda geri hún þá jafnframt tillögur um nafnið og lýsi staðháttum, eftir því sem ástæða er til …“

Ástæðan fyrir því að ég les þetta, virðulegi forseti, er að ég vil undirstrika að það er ákveðið fyrirkomulag til staðar um þessi mál. Ég fellst þess vegna ekki alveg á þá skýringu eða þá nálgun að hér sé með allt að því ráðstjórnarlegum hætti verið að búa til eitthvert skrifræðisapparat sem síðan drepi niður allt frumkvæði og hugmyndir og sjálfsprottna þróun í nafngiftum. Ég tel að það sé nú nokkuð langur vegur frá.

Hér er auðvitað sú hugsun að baki, sem birtist líka í lögum nr. 35/1953, að það kemur alltaf að því að taka þarf ákvörðun um hvert heitið á að vera vegna þess að það þarf að færa það í kort. Þá dugar ekki að mínu mati, virðulegi forseti, að vísa til árþúsundahefðar eða þróunar hér í landi vegna þess að sá þáttur sem snýr að kortagerð og notkun á kortum er til þess að gera nokkuð nýlegt fyrirbæri, svona almennt í það minnsta í samfélagi okkar. Það skipti kannski ekki svo miklu hér áður fyrr þótt þessi þróun tæki töluverðan tíma af því að akkúrat þessi álitamál voru ekki uppi, þ.e. hvernig færa eigi heitin í kort.

Þá vísa ég til dæmis til náttúrufyrirbæra eins og Surtseyjar og hvernig staðið var að nafngift hennar og eins á þeim fjöllum sem hv. þm. Róbert Marshall nefndi. Hvernig staðið var að þeirri nafngift var að mínu mati í raun ekki grundvallað á lögum eða heimilt samkvæmt lögum. Ef mig brestur ekki minni þá var sett á laggirnar nefnd sem lagði til þessi nöfn. Að mínu mati átti sú nefnd sér enga lagastoð.

Aftur á móti hef ég heyrt frá t.d. fjölmiðlamönnum að þeir hafi áhyggjur af því að of langur tími líði frá því að til verður náttúrufyrirbæri sem er síðan fjallað um í fréttum, t.d. núna um Holuhraun svokallað, án þess að búið sé að taka ákvörðun um hvað það heitir. Þá sé það einhvern veginn þannig að fréttamennirnir gegnum umfjöllun sína taki ákvörðun um nafnið vegna þeirrar stöðu sem þeir eru í að gefa línu um hvert heitið eigi að vera.

Þetta frumvarp, þó að það láti ekki mikið yfir sér, er því mikilvægt. Ég tel það til þess fallið að leysa ákveðin álitamál sem eru uppi og sé frekar til einföldunar frá því fyrirkomulagi sem var, það sé skýrara og færi ákvörðunina til fólksins sem býr á því svæði sem nýtt örnefni verður til eða þörf er á nýju örnefni, eitthvert nýtt náttúrufyrirbæri. Það sé fólkið þar sem taki ákvörðunina, þó að fenginni umsögn, vissulega. Það sé hvorki örnefnanefnd, eins og í núverandi fyrirkomulagi, sem taki slíka ákvörðun, né sé það gert með þeim hætti sem ég tel að hafi ekki alveg átt sér lagastoð, þótt ég geri svo sem í sjálfu sér enga athugasemd við það hvernig það var gert, þ.e. ég held að enginn skaði hafi orðið af. En það er nauðsynlegt að hafa um þetta eitthvert gott kerfi.

Það að menn vilji hafa kerfi þegar kemur að opinberum afskiptum er ekki til marks um stjórnlyndi heldur einmitt takmörkun á stjórnlyndinu, vegna þess að með því að hafa ekki kerfið með þessum hætti heldur skilja þetta eftir opið eru einmitt meiri líkur á því að ráðherrar taki sér vald umfram það sem Alþingi hefur veitt þeim.