144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:50]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta innsýn inn í núgildandi lagaramma í þessum efnum. Ég held því ekki fram að kerfið eins og það er í dag sé fullkomið, ég er ekkert að verja það. Ég vildi aðeins benda á nokkur atriði sem ég tel að geti orðið til einföldunar í málinu og til styttingar.

Ég nefni sérstaklega frumkvæðisrétt nefndarinnar. Af hverju telur hæstv. ráðherra að hann sé nauðsynlegur ef menn eru búnir að skilgreina nákvæmlega hvert hlutverkið er og það er til staðar ákveðin nefnd sem hefur það hlutverk að skera úr um ákveðna þætti sem til hennar er vísað, deilumál o.s.frv.? Af hverju þarf hún að hafa þennan sérstaka frumkvæðisrétt?

Svo velti ég líka fyrir mér vistun þessa verkefnis, sem að mörgu leyti er hagsmunamál sveitarfélaga. Er ekki mögulegt að þetta væri verkefni sem Samband íslenskra sveitarfélaga sinnti, svo dæmi sé nefnt, vegna þess að oftast eru þetta einhvers konar sveitarfélagsmál? Það er hagsmunamál sveitarfélaganna að slíkir hlutir séu á hreinu.

Þetta eru spurningar sem ég vil biðja hæstv. ráðherra að bregðast við í svari sínu við þessu andsvari mínu.