144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna umræðu um flækjustig og annað slíkt vil ég halda því fram að það frumvarp sem nú hefur verið lagt fram skýri nokkuð og sé til einföldunar frá því ferli sem er í gildi. Að sjálfsögðu eru vel þegnar allar ábendingar um að finna aðrar leiðir sem eru til þess fallnar að skýra þetta og einfalda enn frekar. Ég treysti hv. nefnd vel, allsherjar- og menntamálanefnd, til að taka afstöðu til þess, en bendi á að það eru veigamikil rök fyrir mörgum þeim þáttum sem er lagt upp með hér. Við höfum langa sögu af því að þurfa að leysa úr álitaefnum sem upp kunna að koma vegna örnefna. Það er þá nauðsynlegt að fórna ekki slíku fyrir einhverja yfireinföldun sem síðan leiðir til þess að flækjustigið vex í raun og veru. Það er mikilvægara að til séu skýrar reglur sem um leið einfalda málsmeðferðina og gera hana auðveldari heldur en ekki.

Hvað varðar frumkvæðisréttinn vil ég benda á athugasemdir um 4. g. Þar kemur fram hvað átt er við. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vitna í þingskjalið, með yðar leyfi:

„Í því sambandi lagði nefndin til að settur yrði eins konar „öryggisventill“ á ferlið þannig að nefndin hefði heimild til þess að taka mál upp á vettvangi nefndarinnar þó að tímafrestur til viðbragða væri liðinn, t.d ef nefndinni yfirsæjust gallar á nafni eða ef einhver annar aðili gerði athugasemdir við nafn. Það kom jafnframt fram í athugasemdum nefndarinnar að ekki væri alltaf öruggt að viðkomandi sveitarstjórnir, á hverjum tíma, færu eftir verklagsreglum eða lögum um örnefnavernd.“

Það eru slík atriði sem um er að ræða. Aftur á móti eru meginverkefni nefndarinnar talin upp þannig að það getur aldrei orðið um nema akkúrat svona atriði að ræða, sem snúa að frumkvæðisréttinum.