144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri sennilega ráð að setja upp einhvers konar nefnd til þess að þýða texta frá fjármálaráðuneytinu. Ég held að það gæti verið til heilmikilla bóta fyrir okkur öll. Ég skil þetta þó þannig, og skal hafður allur fyrirvari við þann skilning, að hér sé verið að tala um að í raun þýði það að nefndarlaun lækki, þ.e. ef heildarkostnaður á að vera hinn sami en nefndarmönnum fjölgar gefur augaleið að þetta þýði það. En það er sjálfsagt að kalla nánar eftir þessu og það kann að vera að nefndin vilji breyta því, að ekki sé ástæða til að lækka nefndarlaunin. Þetta eru ekki þannig fjárhæðir að það valdi stórkostlegum efnahagslegum skaða þótt þeir nefndarmenn sem þarna eru hafi sömu laun og áður. Ég ætla ekki að taka stóra afstöðu til þess, það er ekki stærsta málið.

Enn og aftur varðandi frumkvæðisréttinn og nafnhefðina, af því hv. þingmaður nefndi t.d. húsheitið London. Það fellur ágætlega að íslenskri beygingarhefð og öðru slíku. Það er hægt að beygja það orð og bæta við það greini o.s.frv., þannig að — (Gripið fram í.)Londons, þingmaðurinn þarf ekki að spyrja. (Forseti hringir.) Nafnið hlýtur að hafa verið beygt þannig í Vestmannaeyjum.