144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[19:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að ráðherra telur að ef hægt sé að einfalda löggjöfina í meðförum þingsins þá væri það ákjósanlegt. Ég hvet nefndina til þess að skoða þá möguleika vel og rækilega. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að örnefnin eru mikilvægur hluti af menningararfi okkar og það er sannarlega ástæða til þess að gæta að því, en það verður líka að hafa í huga að sá menningararfur varð til hjá fólkinu sjálfu, fólkinu á vettvangi, heima í héruðunum en ekki hjá nefnd fyrir sunnan.

Það er aldrei hægt að segja það eða ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra leggi að jöfnu örnefni í náttúru Íslands og síðan hvaða nöfn menn kjósa að velja nýjum hverfum í einhverjum sveitarfélögum eða sameinuðu sveitarfélagi sínu eða götum í einhverjum bæ. Það geta ekki verið menningarverðmæti eða hluti af sögu okkar á þann hátt að einhver nefnd fyrir sunnan þurfi (Forseti hringir.) að hafa um það að segja í hvert eitt sinn.