144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[19:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég ætla nú bara að gera smá athugasemd af því að ég tók þátt í þessari umræðu hér fyrir jól og ég er enn þeirrar skoðunar að mér finnst frumvarpið — ég ætla þá að nota sama orð og hv. þm. Róbert Marshall notaði, það er svona Ráðstjórnarríkjablær á því. Og það breytir engu í mínum huga þó að lög frá — ég held að hæstv. ráðherra hafi sagt að þau væru frá 1953, eldgömul lög — séu líka í þeim dúr. Þá held ég að það ætti frekar að vera okkar, ef við erum að endurskoða lög af því tagi og finnst þau of flókin, að gera þau einmitt einfaldari og reyna að halda því við þó að teknókratar segi: Það hefur aldrei verið þannig, þetta er sjálfsprottið hjá þjóðinni og svona. Ja, þetta er samt sem áður í þjóðarvitundinni, við höfum gaman af því að örnefni verði til svona smám saman og hjá okkur sjálfum.

Svo gerist það náttúrlega í borgum líka að götunöfnum er breytt. Við á Skúlagötunni erum alveg rugluð út af því að helmingurinn af henni heitir núna Guðrúnartún eða eitthvað svoleiðis. Átti það að fara fyrir örnefnanefnd? Ég meina, það má gera alls konar svona hluti en bara ekki gera hlutina of flókna. Það er það sem ég vildi gera athugasemd við fyrst ráðherrann er þeirrar skoðunar að fyrst eitthvað er einhvern veginn þá eigi það endilega að vera þannig áfram. Ég er alveg á öndverðum meiði við það.