144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég sé mér skylt að vekja athygli á því að í atvinnuveganefnd í morgun var lögð fram munnleg breytingartillaga við rammaáætlun, áætlun um nýtingu og vernd, þ.e. þingsályktunartillöguna sem liggur fyrir þinginu um Hvammsvirkjun. Sú tillaga var eingöngu munnleg, um að bæta fjórum kostum við þá þingsályktunartillögu, fjórum, í neðri hluta Þjórsár tveimur kostum plús Hagavatnsvirkjun og Skrokköldu. Ég tel þetta með ólíkindum, þetta er ekki einu sinni á dagskrá atvinnuveganefndar og tekið á einhverri andarteppu í lokin. Ekki liggur einu sinni fyrir formleg breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar um þessa hluti heldur á þetta eingöngu að vera munnlegt og svo á að senda þessa fjóra kosti í umsagnarferli. Hvað er í gangi? Eru þetta vönduð vinnubrögð? Er ekki eðlilegt að ráðherra viðkomandi málaflokks fjalli um málið og leggi til breytingar varðandi þessa virkjunarkosti ef mönnum liggur svona mikið á og ætla algjörlega að hunsa (Forseti hringir.) verkefnisstjórnina og tillögur frá henni?