144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það sem hér hefur verið sagt af hálfu stjórnarandstöðunnar um þetta mál. Ég vona að virðulegur forseti bregðist við með sambærilegum hætti og hann gerði þegar þetta mál kom inn í vetur þar sem stjórnarandstaðan lét ekki bjóða sér slík vinnubrögð og forseti tók undir það með því að málið fór ekki lengra. Það að fækka virkjunarkostunum úr átta í fjóra er heldur ekki ásættanleg vinnubrögð eins og hér hefur verið rakið og stenst ekki lög um rammaáætlun. Því biðla ég til virðulegs forseta og tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar að forsætisnefnd fundi um þetta mál. Það er ekki hægt að láta bjóða sér að svona sé komið fram og unnið með rammaáætlun.

Hér er þingið líka undir, þ.e. starfsemi þingsins. Hæstv. forseti hefur talað um frið og að hér sé vel farið með mál og þetta er ekki til þess fallið að skapa frið um dagskrá þingsins.