144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir mjög leiðinlegt þegar menn komast að einhvers konar samkomulagi sem síðan er brotið. Það grefur undan trausti og það grefur undan möguleikum á því að komast einhvern tímann seinna að samkomulagi um nokkurn skapaðan hlut. Hér er um að ræða eitt mesta bitbein í íslenskri umræðu og það var mikið fagnaðarefni að náðst hefði einhver niðurstaða. Það er fullkomlega ömurlegt að núna sé verið að svíkja það fyrirkomulag og þær ákvarðanir sem teknar voru af þinginu.

Ég tek undir orð þeirra sem leggja til að gert verði hlé á fundi og haldinn þingflokksformannafundur sem fyrst.