144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem mér heyrist að hafi komið hér fram. Ég sat fund nefndarinnar í morgun og kom seint til þessa fundar vegna þess að ég var að ganga frá bókun til nefndarritara um málið þar sem ég mótmælti þeim vinnubrögðum meiri hluta nefndarinnar að bæta við fjórum nýjum virkjunarkostum, ný hugmynd, og senda það út til umsagnar. Það var engin skrifleg tillaga sett fram og engin tillaga er komin undir málið frá meiri hluta nefndarinnar. Ég tel að þessi málsmeðferð sé ekki í samræmi við lög um vernd og nýtingu landsvæða og harma það að ekki sé farið að lögum.

Þessi málsmeðferð meiri hluta nefndarinnar er líka til þess fallin að auka enn deilur og úlfúð um þetta mikilvæga mál og mikilvæga málaflokk þar sem öðru fremur væri mikilvægast hjá okkur alþingismönnum að reyna að skapa sem mesta sátt og eyða deilumálum, þar sem enginn fær allt sitt fram og allir verða kannski að gefa eitthvað eftir. Það er list málamiðlunar.

Auk þess vil ég vekja athygli (Forseti hringir.) á því eins og hér hefur komið fram að þetta var ekki á dagskrá nefndarinnar og meiri hlutinn þurfti að kalla inn(Forseti hringir.) tvo þingmenn utan nefndarinnar til að ná sínu fram. (Forseti hringir.) Ég tek undir það að nauðsynlegt sé að funda í forsætisnefnd (Forseti hringir.) til að ræða um þessi vinnubrögð.