144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[11:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hélt að þessum sirkus hefði lokið hér í nóvember þegar við áttum dag Jóns Gunnarssonar 1 en nú á að taka dag Jóns Gunnarssonar 2. Þá skulum við bara gera það og fara yfir allt málið aftur. Það er einfaldlega þannig að við erum með lög í þessu landi sem voru samþykkt í þessum sal á síðasta kjörtímabili, m.a. af hv. þm. Jóni Gunnarssyni og félögum í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Það var samþykkt af öllum flokkum á þingi í hvaða ferli rammaáætlun ætti að vera. Og ferlið er ekki þannig að atvinnuveganefnd eigi að taka ákvörðun um það hvað eigi að virkja og vernda. Það er ekki þannig. Ferlið er svoleiðis að það eru sérstakir faghópar, það er verkefnisstjórn um rammaáætlun sem tekur ákvörðun um það með hvaða hætti hún leggur til að farið verði í málið. Í framhaldi af því setur ráðherra málið í opið umsagnarferli og tekur síðan við þeim athugasemdum sem þar koma fram og fer með málið í þingið eftir það (Forseti hringir.) umsagnarferli. Þannig eru lögin, virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Jón Gunnarsson ætti að hætta að gjamma fram í og leyfa öðrum að tala vegna þess að hann er búinn (Forseti hringir.) að eiga sviðið mjög hressilega í þessari umræðu og mun án efa eiga það hér í dag vegna þess að við (Forseti hringir.) höfum ekki sagt síðasta orðið í þessu máli.