144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[11:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér kom hv. þm. Páll Jóhann Pálsson í pontu og sagði að fyrri ríkisstjórn hefði brotið lög um rammaáætlun. Það er rangt. Þetta eru ósannindi sem farið hefur verið með úr þessum ræðustól oftar en einu sinni. Nú vil ég, hæstv. forseti, biðja um að á fundinum sem haldinn verður á eftir með forsætisnefnd og þingflokksformönnum verði farið yfir það hvaða grein laganna var brotin. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hvaða grein laganna var brotin?

Síðan skulu menn bera saman hvaða greinar laganna er verið að brjóta með þessari tillögu ef hún verður að veruleika, sem við í stjórnarandstöðunni munum auðvitað gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir. Ég er viss um að hæstv. forseti mun verja virðingu þingsins (Forseti hringir.) og einnig koma í veg fyrir það.