144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[11:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við kunnum öll að meta það þegar fólk slær á létta strengi hér í ræðustól. Það er því miður kannski of sjaldan gert. En fimmaurabrandarar af því taginu að böðlast út og brjóta lög með því að ætla að fara með átta kosti niður í fimm og að það sé málamiðlun, mér finnst það ekki boðlegt í þessum sal. En það sýnir einmitt hvernig þessi meiri hluti sem hefur náttúrlega miklu meiri þingstyrk en hann hefur kjörfylgi til — hann hefur það að vísu í hinni óréttlætanlegu kjördæmaskipan sem hér er — ætlar að böðlast áfram. Það er alveg hreint með öllum ólíkindum.

Það er eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hvíslaði að mér, hún sagði: Ef ég hefði skrifað handritið að dónaskapnum sem á að sýna okkur hér í þinginu, þá væri það fallegra (Forseti hringir.) en það sem við horfum upp á hér í dag.