144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

sameining háskóla.

[11:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna það að frá því í haust hefur verið unnin mikil vinna í mennta- og menningarmálaráðuneytinu við gagnaöflun og greiningu á háskólastiginu þar sem er verið að skoða stöðu íslenskra háskólastigsins í samanburði við það sem gerist í löndunum í kringum okkur, gæðamál, kennslumál, rannsóknir, fjármögnunarmódel o.s.frv. Niðurstaða þeirrar vinnu mun liggja fyrir innan skamms og ætti hún að vera góður grunnur að áframhaldandi umræðu um stöðu háskólastigsins.

Sú vinna sem er unnin samhliða því verkefni er m.a. að skoða hvaða möguleika við eigum til þess að styrkja minnstu skólana okkar. Það var til þeirrar vinnu sem hv. þingmaður var í raun að vísa. Þá er nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram, þannig að það valdi ekki misskilningi, að engin ákvörðun hefur verið tekin um að þessi sameining eða samstarf eða samrekstur verði að veruleika. Hér er einungis verið að fara yfir stöðu mála, kanna hvaða möguleikar eru til staðar, síðan mun koma fram þessi skýrsla og þá munum við í framhaldinu, þegar öll gögn í málinu eru uppi, taka ákvörðun.

Ég vil aftur á móti, virðulegi forseti, gera verulega athugasemd við það að hv. þingmaður skuli hafa sagt um þessa skóla og notað orðalagið „þremur líkum“. Ég held að hv. þingmaður ætti að nota tækifærið þegar hann kemur í annað andsvar sitt að draga þau ummæli til baka, þau voru óviðeigandi um þessa skóla. Eins athugasemdir hans um stöðu Háskólans á Akureyri gagnvart skólunum. Þær, virðulegi forseti, eru bara fráleitar og ekki svaraverðar.