144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

sameining háskóla.

[11:32]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að hér kemur fram hjá hæstv. ráðherra að unnið hafi verið að undirbúningi þessa máls frá því í haust. Eftir því sem fram kemur í fjölmiðlum hefur ekki verið rætt við einn einasta rektor þessara skóla, þ.e. Landbúnaðarháskólans eða Háskólans á Hólum. Mér vitanlega hefur ekki verið rætt um þessi mál við stjórnendur Háskólans á Akureyri. Eftir stendur þá Háskólinn á Bifröst. Ég veit ekki hvort eitthvert samráð hefur verið haft við stjórnendur þar, en mér þykir það líklegt í ljósi þess að rektorinn þar er fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar Sjálfstæðisflokksins frá fyrri árum og ber öll þessi vinna merki þess að verið sé að einkavæða enn frekar í háskólasamfélaginu en verið hefur.

Ég lít þannig á að einn hluti þessa máls, verði þetta að veruleika, mun ógna stöðu Háskólans á Akureyri, landsbyggðarháskólans, fjarnámsháskólans, vegna þess að þarna er verið að setja einkaskóla á fót sem mun þurfa fjármagn, (Forseti hringir.) sem mun þurfa að standa sig á samkeppnismarkaði við Háskólann á Akureyri. Ég lít þannig á og endurtek að það ber að líta á þær trakteringar sem Háskólinn á Akureyri (Forseti hringir.) fékk í fjárlögum á yfirstandandi ári í því ljósi, ekki síst vegna þeirra nýju upplýsinga sem koma hér fram hjá hæstv. menntamálaráðherra (Forseti hringir.) um að þetta hafi verið í undirbúningi frá því í haust.