144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

samgöngumál.

[11:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hreyfir hér við mjög mikilvægu máli sem er uppbygging samgöngumála í landinu. Þessa dagana fer einmitt fram vinna í ráðuneytinu vegna samgönguáætlunar og stendur til að hún verði lögð fram á þessu þingi. Ég er jafnframt að leggja fram mínar áherslur inn í þá vinnu. Að sjálfsögðu hefur vinna verið í gangi allt þetta kjörtímabil um uppbyggingu í samgöngumálum, en ég get núna komið með mínar áherslur inn í það starf og ég get fullvissað hv. þingmann um að ég geri mér fulla grein fyrir því hversu mikilvægar samgöngurnar eru í innviðauppbyggingu í landinu. Hv. þingmaður nefnir heilbrigðiskerfið og það er svo sannarlega rétt að úti í hinum dreifðu byggðum, þar sem við lítum til öryggissjónarmiða í heilbrigðiskerfinu, skipta samgöngur gríðarlega miklu máli. Um það held ég að við hv. þingmaður séum hjartanlega sammála.

Ég vil nefna hér að þeim fjármunum sem fengust til viðbótar í fjárlagagerðinni og var ráðstafað til innanríkisráðuneytisins var að verulegu leyti varið í samgöngumál. Ég get líka tekið undir það með hv. þingmanni og sem ráðherra þessa máls að ég vil að sjálfsögðu fá frekari fjármuni. Við vitum að við höfum þurft að draga verulega úr undanfarin ár vegna þeirra hremminga sem við lentum í í efnahagslífinu og það er mikið verk óunnið á sviði samgöngumála víða um land, bæði í hinum dreifðu byggðum og á höfuðborgarsvæðinu, þar eru einnig stór verkefni sem þarf að fara í að mínu áliti. Ég held að það sé mjög mikilvægt á þessum tímapunkti að við lítum til þeirra stórframkvæmda sem við þurfum að fara í og menn verða líka að gera mun meira átak í viðhaldi vega o.s.frv.

Þessi stefnumörkun á sér stað þessa dagana. Ég vil kannski ekki fara út í einstaka liði en ég get hins vegar sagt hv. þingmanni að mér er vel kunnugt um(Forseti hringir.) þá mikilvægu samgöngubót sem Dýrafjarðargöng eru.