144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[11:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í hádegishléinu á eftir er ætlunin að fara yfir þann sirkus sem hafinn er í þinginu að nýju eftir ákvörðunina í atvinnuveganefnd í morgun að senda virkjunarkosti til umsagnar úti í samfélaginu. Mér fannst óþægilegt að sitja undir því í morgun að vera sökuð um lögbrot eða hafa tekið þátt í því að brjóta lög, en það kom fram í máli nokkurra stjórnarþingmanna í morgun að það hefði verið gert í ferlinu á síðasta kjörtímabili. Mér þætti vænt um að þetta yrði allt saman skoðað, lagaleg hlið málanna verði skoðuð vandlega af hálfu forseta og þingflokksformanna og fengin einhver úttekt á því. Við getum ekki setið og starfað saman á hinu háa Alþingi og sakað aðra, til að stækka okkur sjálf í umræðunni, um að brjóta lög. Mér finnst við þurfa að taka þetta föstum tökum. (Forseti hringir.) Ég vil ekki sitja undir því að hafa brotið lög á síðasta kjörtímabili og óska eftir því að þetta verði skoðað sérstaklega í vinnu þingflokksformanna og forseta.