144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau atriði sem fyrri ræðumenn hafa tekið upp undir þessum lið og nauðsynlegt að fá það alveg skýrt fyrir fundi okkar formanna þingflokka og sömuleiðis forsætisnefndar með forseta um málið. En til viðbótar er algerlega nauðsynlegt að fá strax á hreint hvort hér er um enn eitt frumhlaupið hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að ræða og meiri hlutanum í atvinnuveganefnd eða hvort það er ríkisstjórn Íslands og þeir hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson sem sendir meiri hluta atvinnuveganefndar í þessa vegferð. Ég veit að svo ber vel í veiði að hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er í næsta herbergi og því kalla ég eftir því að hæstv. forsætisráðherra upplýsi þingheim um það hvort þessum sprengjum í virkjanamálum sé hent inn á vegum ríkisstjórnarinnar og hvort það að ganga á svig við ákvæði laga um rammaáætlun með þessum hætti sé með vitund og vilja (Forseti hringir.) Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og þar með á ábyrgð þeirra.