144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er komin upp mjög vandasöm staða þegar meiri hluti atvinnuveganefndar sýnist ráðinn í því að hafa að engu þau lög sem gilda um mikilvægt málefni og freista þess aftur og aftur að koma fram með tillögur sem ekki standast þann lagagrunn sem við höfum saman búið til á Alþingi. Mér finnst eðlilegt að gera þá kröfu til meiri hlutans að hann leggi fram lögfræðilega greinargerð um það á hvaða grunni þessi tillaga er byggð. Mér finnst þingið ekki geta starfað með þeim hætti að kappsamir nefndarformenn geti með tilstyrk formanna sinna stjórnarflokka valsað holt og bolt um viðkvæma málaflokka án þess að vera bundnir af lögum. Mér finnst þingið verða að setja þessi mörk og þingið verður að leggja fram greiningu. Við verðum að fá greiningu frá yfirlögfræðingi Alþingis á lagarammanum í þessu máli. (Forseti hringir.) Ég er tilbúinn að una því þá hvernig sú greining fjallar um verkefni og verklag ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili og ég ætlast til þess að ný ríkisstjórn sé jafnframt bundin af slíkum greiningum.