144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá beiðni sem fram kom hjá hv. þm. Róberti Marshall, það skiptir máli að við fáum að heyra hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þessu máli vegna þess að það eru gildandi lög í landinu um ferlið. Hér er verið að taka ákvörðun um það í annað skipti að fara á svig við það, gera þetta öðruvísi, gera þetta eins og menn vilja, eins og þeim sjálfum hentar samkvæmt sínum eigin skoðunum og sniðganga hið faglega ferli. Það er verið að gera það hér og þess vegna skiptir máli að við heyrum hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir í þessum efnum og hvort hv. þm. Jón Gunnarsson hafi stuðning til þess í þetta skipti. Hann virtist hafa það í fyrra skiptið. Það skiptir verulegu máli.

Til að fara í stuttu máli yfir það nákvæmlega hvernig þetta var á síðasta kjörtímabili var það svona samkvæmt lögunum: Það kemur út röðun frá verkefnisstjórninni, hún er send í opið umsagnarferli, í framhaldi af því eru þeir kostir sem fengu hvað mestar athugasemdir settir í biðflokk og þar með óskað eftir því að hin faglega verkefnisstjórn fjalli um þá kosti (Forseti hringir.) að nýju út frá þeim athugasemdum sem fram komu. Það voru öll hræðilegu ósköpin sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði. (Forseti hringir.) Þetta þarf að skoða með þingflokksformönnum og forseta (Forseti hringir.) og losa okkur við þær ávirðingar að við höfum með þessu ferli brotið lög.