144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að tilkynna að ég var ekki í seinustu ríkisstjórn, flokkurinn minn var ekki í seinustu ríkisstjórn og mér er nákvæmlega sama hvað seinasta ríkisstjórn gerði þegar kemur að umræðu um það sem er að gerast hér og nú undir þessari ríkisstjórn. Mér finnst það bara ekkert koma málinu við í sjálfu sér.

Það að seinasta ríkisstjórn hafi gert eitt réttlætir ekki að það hafi verið gert núna ef það er þá satt á annað borð, sem mér heyrist að sé ekki. En mér finnst bráðnauðsynlegt að þegar við ræðum eitthvað eins og virkjanir og önnur bitbein í íslenskri þjóðfélagsumræðu þá sé það algert lágmark að það sé þá á dagskrá nefndarinnar sem það er ekki og hefur ekki verið. Þetta gerir okkur pírötum ógerlegt að forgangsraða okkar nefndarstörfum sem við þurfum að gera vegna þess að við erum einfaldlega of fámenn.

Ég þarf að heyra og við píratar almennt um þessa umræðu í þessum þingsal án þess að vita hvað gengur á á nefndarfundum vegna þess að við þurfum að forgangsraða öðruvísi en aðrir flokkar. Ég krefst þess að forseti taki hv. þm. Jón Gunnarsson tali og sjái til þess að þegar hann ætlar að ræða önnur eins mál þori hann alla vega að setja þau á dagskrá.