144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við fengum að heyra það áðan og verða vitni að því að það er fátt um fína drætti í röksemdafærslu stjórnarliða í þessu máli. Þá er auðvitað gripið til þessa gamalkunnuga ráðs sem stjórnarliðar bregða æ oftar fyrir sig, að það hafi þá bara verið brotið samkomulag eða lög eða hvað það var á síðasta kjörtímabili. Þetta er sambærilegt við viðbrögð hæstv. forsætisráðherra þegar hann í sjónvarpsþætti var í vandræðum með að svara fyrir lekamálið og slengdi fram þeirri fullyrðingu að það hefði bara verið svo mikill leki á síðasta kjörtímabili að þetta hlyti að vera allt í lagi en gat svo ekki nefnt eitt einasta dæmi.

Það sama er á ferðinni hér. Þessi málsvörn stjórnarliða er hörmulega mislukkuð því það liggur algerlega fyrir að meðferð þessara mála, í aðdraganda þess að tillagan kom hér fram á þingi, var nákvæmlega í samræmi við lög um rammaáætlun. Menn vönduðu sig við það ferli að hafa bæði tímafresti og umsagnarrétt og allt annað gersamlega skothelt þannig að málatilbúnaðurinn stæðist að öllu leyti þegar hann kæmi fyrir þingið, og það gerði hann.