144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að minna okkur á hve mikið lá á að koma málefnum rammaáætlunar úr umhverfis- og samgöngunefnd yfir í atvinnuveganefnd. Hv. formanni umhverfis- og skipulagsnefndar og forseta Norðurlandaráðs, Höskuldi Þór Þórhallssyni, var ekki treyst til að fara með málið. Það er svo sem mér virðist það vera að teiknast upp.

Herra forseti. Er það þá virkilega svo — það er náttúrlega það sem við hér í minni hlutanum þurfum að vita — að þetta sé í raun vilji ríkisstjórnarinnar sem endurspeglast í broti hv. formanns atvinnuveganefndar, Jóns Gunnarssonar, á þingskapalögum? Ég spyr hvort þetta hafi verið fyrir fram skipulagt með þessum hætti. Ég trúi því eiginlega ekki en þegar við minnumst þess hve það var mikilvægt að þingmaðurinn, sem hefur nú sýnt svolítið sjálfstæði í störfum sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar — málið mátti bara alls ekki fara í hans hendur. (Forseti hringir.) Ég held að það sé ágætt að formenn stjórnarflokkanna svari fyrir stefnu sína í þessu máli, hvort það sé lögbrot (Forseti hringir.)sem eigi að viðhafa eða fara að reglum sem hér hafa verið settar.