144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar við ræddum þessi mál í nóvember sl. þá bar málið að á svipaðan hátt og það gerir núna. Málið var ekki á dagskrá og tekið fyrir undir liðnum Önnur mál. Uppi varð fótur og fit í þingsal og ákveðið að málið færi ekki lengra. Satt að segja stóð ég í þeirri meiningu að hæstv. forseti hefði gengið svo frá málum að þetta mundi ekki endurtaka sig.

En hvað er að gerast hér í dag? Það er nákvæmlega sama atburðarás að fara af stað og með nákvæmlega sama hætti. Getur verið að forustumenn stjórnarflokkanna hafi ekki rætt við stjórn atvinnuveganefndar um þessa atburðarás í nóvember? Eða getur verið að forustumenn flokkanna hvetji til þess að svona sé unnið af forustumönnum nefnda?