144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að spurt sé hvernig í málinu liggi nú. Þegar þetta kom upp á nú í nóvember fór ekkert á milli mála að hér var ráðherrabekkur Sjálfstæðisflokksins mættur og hv. þm. Jón Gunnarsson var bakkaður upp af yfirsjálfi sínu, hæstv. fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, einarðlega. Þá var það hins vegar þannig að enn var umhverfisráðherra í landinu sem stóð í lappirnar. Það verður að segja hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, núverandi hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, til hróss að hann slökkti á þessu máli hratt og örugglega.

Eigum við að trúa því að ráðherraskiptin nú um áramót hafi bara verið til þess að tryggja traustan framgang fruntaskaps í umhverfismálum? Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. umhverfisráðherra Sigrún Magnúsdóttir sé svo lítilþæg að falla frá einarðri andstöðu hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Ég vil fá hana hingað í sal og heyra það þá skýrt strax.