144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér á hinu háa Alþingi er þess jafnan krafist af hv. þingmönnum að þeir sýni þinginu virðingu. Maður mundi halda að virðing fyrir lögum sem eru samþykkt einróma væri hluti af þeirri virðingu, maður mundi halda að það að setja mál á dagskrá sem á að ræða í nefnd væri hluti af þeirri virðingu. Maður mundi halda, síðast en ekki síst, að hæstv. ríkisstjórn gæti tekið afstöðu til þess hvort hún telji þetta vera til marks um virðingu fyrir þinginu.

Því miður er það einhvern veginn þannig hérlendis að við kjósum þingmenn og efstu þingmennirnir fá miklu meiri hlutfallsleg völd en hinir. Það er raunveruleikinn sem við búum við í dag. Það er samt sem áður grundvallaratriði í lýðræðisríki að ríkisstjórnin beri virðingu fyrir þinginu. Og þegar fulltrúar ríkisstjórnarinnar, sem eru hv. nefndarformenn í þokkabót, sjá sér ekki fært af óskiljanlegum ástæðum að setja þetta mál á dagskrá finnst mér sjálfsögð krafa, á hendur hæstv. ríkisstjórn, að útskýra hér nákvæmlega hvernig hún sjái fyrir sér (Forseti hringir.) virðingu fyrir þinginu.