144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þar sem ég sé að hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, er kominn í salinn vil ég beina því til hans að hann létti á vinnunni á Alþingi með því að draga þessar hugmyndir til baka. Það er líka hægt. Þetta eru bara hugmyndir og við skulum fyrirgefa hv. þingmanni það að hann hafi farið á hugarflug í morgun og gleymt að setja þetta mál á dagskrá. Það er gott að hugsa en menn verða líka að hugsa hvort þeir hafi gert eitthvað rangt og hafa skynsemi til að bera til að draga til baka eitthvað sem er ekki rétt.

Það mundi létta mjög á störfum þingsins við að hann sjálfur stigi fram og drægi þetta til baka. Það er ekki ásættanlegt að svona stór mál, ef þessi hugmynd verður að veruleika og breytingartillaga verður lögð fram, fái bara eina umræðu af því að þetta er þingsályktunartillaga. Fyrri umr. er búin og bara eftir síðari umr. (Forseti hringir.) Það hljóta allir heilvita menn að sjá að það gengur ekki.