144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Af málflutningi hv. þingmanna má ætla að ákveðinn misskilningur sé í gangi. Það er sagt hér af sumum hv. þingmönnum, t.d. af hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur áðan, að málið hafi verið tekið úr nefnd í morgun. Hér er talað eins og verið sé að taka þetta mál úr nefnd.

Það sem er rétt í málinu er að verið var að senda breytingartillögu til umsagnar. Þá er sagt hér að mjög faglega hafi verið staðið að því og rökstutt af verkefnisstjórn, í tillögu til ráðherra, og ráðherra hafi staðið faglega að málum. Til hvers er þá verið að senda þessa þingsályktunartillögu til þingsins með því umsagnarferli sem þar á að viðhafa og er viðhaft, með allri gestakomu og öllu, er það ekki fagleg umfjöllun? Er það ekki nákvæmlega það sem við erum að bjóða upp á, að fara faglega leið að þessu?

Og það að við höfum gengið fram hjá lögum — það er sagt hér að meiri hluti nefndarinnar hafi brotið lög. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að hv. þingmenn rökstyðji það og bendi á hvaða grein þingskapa og hvaða grein laga um rammaáætlun (Forseti hringir.) meiri hluti nefndarinnar hefur brotið. Ég óska eftir efnislegri umræðu um það.

Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir (Forseti hringir.) og menn þurfa ekki að láta sér detta það í hug að það sé gert að óskoðuðu máli. Það er auðvitað varið, (Forseti hringir.) bæði í stjórnarskrá lýðveldisins og í þingsköpum, að þingmenn hafa fullan rétt til að leggja fram breytingartillögur (Forseti hringir.) um þau mál sem þingið er að fjalla um.