144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Er ekkert að marka samkomulag við formann Sjálfstæðisflokksins? Það kann að vera rétt að stjórnarskráin upphefji þann ýtrasta rétt þingmanna að þeir geti flutt breytingartillögur, en allir þingflokkar á Alþingi sameinuðust um að setja lög um ákveðið verklag sem hér er verið að ganga gegn. Núna allt í einu ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að fylgja því verklagi sem hann sjálfur gerði að lögum í lögunum um rammaáætlun og vísar til ákvæða í stjórnarskrá um að hann sé óbundinn af því verklagi. Er Sjálfstæðisflokkurinn ekkert bundinn af pólitískum yfirlýsingum sínum eða af því þegar hann greiðir atkvæði í þingsal? Geta sex þingflokkar á Alþingi ekki sameinast um verklag sem stendur til framtíðar af því að alltaf næst þegar vindurinn blæs úr annarri átt hleypur Sjálfstæðisflokkurinn frá þeim samningum og reynir utan dagskrár (Forseti hringir.) og með einni umræðu að virkja fjórar náttúruperlur í náttúru Íslands? Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega og hvað á það að þýða að stórmál (Forseti hringir.) sé afgreitt úr nefnd Alþingis án þess að það sé á dagskrá fundarins? Er hægt að gera þingmönnum slíkt launsátur hér að morgni dags að mál séu afgreidd sem ekki voru sett á dagskrá fundarins? (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Mér heyrist að reglur í þinginu (Forseti hringir.) séu ekki almennt í gildi svo ég bið hæstv. forseta um að lemja jafn oft í þessa bjöllu (Forseti hringir.) og hann hefur lamið í Jón Gunnarsson á þessum morgni. Allir þingmenn eru hér á einu máli um (Forseti hringir.) að það sé algerlega óboðlegt að afgreiða mál með þessum hætti án þess að það sé sett á dagskrá fundarins.

(Forseti (EKG): Þingmaðurinn hefur lokið máli sínu.)

Meira að segja forseti Alþingis telur þá málsmeðferð algerlega óásættanlega.

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður!) (Gripið fram í: Djöfuls framkoma.)