144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Margt rangt hefur komið fram í umræðunni. Í fyrsta lagi hefur málið ekki verið afgreitt út úr nefnd. Það sem var ákveðið í dag var að senda málið til umsagnar (Gripið fram í: Út úr nefndinni.) og þeir þingmenn sem gera sér ekki grein fyrir muninum á því að senda mál til umsagnar og afgreiða það út úr nefnd ættu að lesa þingsköpin og kynna sér aðeins framgang mála í þinginu. Ég held að flestir þeirra tali gegn betri vitund. Málið hefur ekki verið afgreitt.

Í öðru lagi er ekki verið að taka ákvörðun um að virkja. Það er verið að ræða það í nefndinni og fá umsagnir um hvort taka eigi nokkra virkjunarkosti í nýtingarflokk. Ef til þess kemur að virkja þá kosti mun þurfa að fara fram umhverfismat framkvæmda. Þetta vita þingmenn líka. Það var á röngum forsendum sem sjálfsögðum virkjunarkostum var vikið úr nýtingarflokki og þeir settir í biðflokk á síðasta kjörtímabili, (Gripið fram í.) m.a. vegna atriða sem eiga að koma til skoðunar í umhverfismati framkvæmda (Forseti hringir.) en eiga ekkert erindi í umræðu á þinginu.