144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hæstv. forseta um að réttur þingmanna er ríkur. Þann stutta tíma sem ég hef setið á þingi hafa iðulega fallið orð í þessum þingsal að alþingismenn vilji ekki vera bara afgreiðslustofnun ráðherra. Ég vona að við séum öll á þeirri skoðun. Ég vil jafnframt segja ykkur að við stöndum á ákveðnum tímamótum varðandi þetta, ekki bara það sem skeði í morgun heldur það sem þið hafið eflaust orðið vitni að, að gefnir voru út 88 kostir frá Orkustofnun í gær og ég vona að þið hafið lesið ágætt viðtal við formann verkefnisstjórnar rammaáætlunar, Stefán Gíslason, í blöðunum í morgun þar sem hann fagnaði því að þessar hugmyndir væru komnar fram vegna þess að meginverkefni rammaáætlunar er að flokka kosti. Það hefur staðið verkefnisstjórninni fyrir þrifum að hafa ekki nægilega marga kosti undir til að meta og flokka hefur hann meðal annars (Forseti hringir.) tjáð mér. Hann gat jafnframt um það í því viðtali að eftir um það bil ár (Forseti hringir.) mundi hann koma með hugmynd, eða nefndin, um flokkun. Mér finnst að við gætum nokkuð beðið eftir því og staðið að því (Forseti hringir.) sem er í nefndinni núna, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram einn virkjunarkost og nefndin hefur hann til umfjöllunar. Ég hef sagt frá því opinberlega og ætla ekkert að breyta þeirri skoðun minni (Forseti hringir.) að ég hefði tekið undir sjónarmið sveitarstjórnarmannsins í verkefnisstjórninni að skoða mætti þessa þrjá kosti í Þjórsá sem rammaáætlun og verkefnisstjórnin hefur verið að gera.