144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að útskýra fyrir áhorfendum að í gamla daga, eða ekki gamla daga, ekki fyrir svo löngu, áður en rammaáætlun var samþykkt, þurfti hér lagafrumvarp sem tekur þrjár umræður þannig að málin fái næga umræðu. Eftir rammaáætlun þarf tvær umræður um þingsályktunartillögu svokallaða, en í þetta sinn, án þess að setja málið á dagskrá, á að senda það sem virðist vera óskrifuð breytingartillaga, alla vega finn ég hana hvergi skrifaða og hef leitað þó nokkuð mikið, senda á hana til umsagnar og veita þeirri hugmynd eina umræðu, þ.e. síðari umr. um þingsályktunartillögu. Dettur nokkrum heilvita manni í hug að þetta hafi verið hugmyndin þegar rammaáætlun var tekin í notkun? Er einhver hér til í að standa í þessari pontu og segja að svona hafi planið verið? Er hv. þm. Jón Gunnarsson til í það? Hann hefur nú sagt annað eins hér af og til.

Ég spyr: Ef menn ætla að bera fyrir sig stjórnarskrá og því að þeim sé heimilt að gera allan fjárann hér á hinu háa Alþingi, hvers vegna standa þeir þá ekki hérna í pontu og einfaldlega lýsa því yfir að þeir ætli að afnema (Forseti hringir.) rammaáætlun? Það er alveg sama hversu löglegt ferlið er, þetta er ekki í samræmi við hugmyndina um rammaáætlun. (Forseti hringir.) Ef þetta nær í gegn er rammaáætlun búið spil og þá skulu menn standa hér og segja það, hafa manndóm til að þora að tala með þeim hætti.