144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér heyrist á öllu, og það er ánægjulegt, að hæstv. umhverfisráðherra kalli eftir því að það sé beðið með þá tillögu sem hér hefur verið smyglað áfram í gegnum atvinnuveganefnd. Það er kallað eftir því að við bíðum í að minnsta kosti í eitt ár og ég held að hv. þm. Jón Gunnarsson ætti að verða við þessari beiðni hæstv. umhverfisráðherra.

Ef það er eins og kemur fram í máli hæstv. fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að hann líti svo á að ramminn sé ekki lengur virkur finnst mér að ríkisstjórnarflokkarnir eigi að koma hreint fram og segja að ramminn virki ekki lengur og það séu einhverjar aðrar áætlanir um það hvernig við högum okkur varðandi ákvarðanir um hvað eru virkjunarkostir og hvað ekki. Miðað við það sem gerðist í nefnd í morgun og líka fyrir jól (Forseti hringir.) erum við í einhverju hálfkáki. Það er mikil óvissa um (Forseti hringir.) hvernig á að haga þessum málum. Það er óvissa sem við sem samþykktum rammann á sínum tíma héldum að búið væri að finna (Forseti hringir.) lausn á. Það faglega ferli er úti sem mér finnst miður og ég vil bara að fólk þori að segja (Forseti hringir.) hver stefnan er með rammann. (Forseti hringir.) Á að kippa (Forseti hringir.) rammanum úr sambandi eða ekki? Ég óska eftir (Forseti hringir.) að fá skýr svör um það því að fyrr en það er (Forseti hringir.) komið hér fram verður enginn friður, forseti. Enginn friður!